Árleg fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði hækkuðu um 3,5 milljarða á tímabilinu 2013-2016. Gera má ráð fyrir því að Félag atvinnurekenda stefni Reykjavíkurborg fyrir órökstudda beitingu á heimild til að hækka fasteignagjaldið.
Stjórn Félags atvinnurekenda hefur sent frá sér ályktun þar sem hún hvetur til lækkunar álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði til mótvægis við gífurlegar hækkanir á fasteignamati. Á vef Þjóðskrár kemur fram að búist sé við því að heildarmat fasteigna á Íslandi muni hækka um 13,8% frá yfirstandandi ári, þar af muni atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækka um 10%. Frá árinu 2013 hefur fasteignagjald á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 55%, en meirihluti íslenskra fyrirtækja er staðsettur þar.
Fasteignagjald á atvinnuhúsnæði er 1,32% af fasteignamati, en sveitarfélögum er heimilt að hækka það upp í 1,65%. Flest sveitarfélögin nýta sér þessa heimild, árið 2016 voru Vestmannaeyjabær og Seltjarnarneskaupstaður einu sveitarfélögin þar sem hún var ekki nýtt. Í ályktun sinni segir Félag atvinnurekenda frá því að send hafi verið beiðni til allra sveitafélaga um rökstuðning fyrir beitingu álagsins, en að engin efnislegur rökstuðningur hafi komið fram. Einnig kemur fram að félagið hyggist stefna Reykjavíkurborg þess efnis síðar í sumar.