Óskabein ehf., einn stærsti eigandi Vátryggingafélags Íslands (VÍS), hefur flutt fjármögnun sína á eignarhlut sínum í tryggingarfélaginu frá Kviku banka til Arion banka. Þetta var gert vegna kröfu Fjármálaeftirlitsins (FME) um að fjármögnunin yrði færð í ljósi þess að VÍS er nú stærsti eigandi Kviku og fer með virkan eignarhlut.
Tilkynnt var um sölu og kaup á stærstum hluta bréfa Óskabeins í VÍS til Kauphallar í dag. Alls er um að ræða 90 milljónir hluti, en alls á Óskabein rúmlega 135 milljónir hluti. Virði þeirra hluta sem voru seldir og keyptir aftur er rúmur milljarður króna. Bæði kaupin og salan fóru fram klukkan 11:20 í dag.
Í athugasemdum við sölutilkynninguna segir að breyting á „fjármögnun bréfa í eigu Óskabeins ehf. vegna virks eignarhlutar VÍS í Kviku Banka. Sala bréfa til Arion, samhliða er gerður framvirkur samningur um kaup Óskabeins á bréfunum, sjá aðra tilkynningu um framvirk viðskipti send út á sama tíma.“
Í tilkynningu vegna kaupa á sama magni bréfa segir að kaupviðskiptin séu gerð með framvirkum samningi sem sé með gjalddaga eftir eitt ár, þann 8. júní 2018.
VÍS stærsti eigandi Kviku
Tveir af stærstu hluthöfum VÍS, hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson annars vegar og félag Sigurðar Bollasonar og viðskiptafélaga hans hins vegar, keyptu 15 prósent hlut í fjárfestingabankanum Kviku í lok árs 2016. Félög þeirra, K2B fjárfestingar (sem á átta prósent í Kviku) og Grandier ehf. (sem á sjö prósent), eru nú á meðal stærstu eigenda bankans. Grandier seldi sinn hlut í VÍS fyrir nokkrum dögum síðan.
Þann 5. janúar 2017, rúmum mánuði eftir að þau kaup gengu í gegn, var tilkynnt um að VÍS hefði keypt 21,8 prósent hlut í Kviku og sé nú stærsti eigandi bankans. Alls nemur heildareignarhlutur félagsins nú tæplega 25 prósentum.
Einn stærsti eigandi VÍS er félagið Óskabein sem á 5,89 prósent hlut. Það félag er m.a. í eigu Andra Gunnarssonar, Fannars Ólafssonar og Gests Breiðfjörð Gestssonar. Þeir keyptu hlutinn meðal annars með lánum frá Kviku banka. Gestur situr í stjórn VÍS. Í ljósi þess að VÍS er nú orðið virkur eigandi í Kviku, en þeir sem eiga yfir tíu prósent hlut í bönkum teljast virkir eigendur, var gerð krafa um að Óskabein færði fjármögnun sína úr bankanum.