Fyrstu viðbrögð Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, við yfirheyrslum leyniþjónustunefndar Bandaríkjaþings yfir James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, í gær komu á Twitter í morgun.
Trump segist þar alltaf hafa verið í fullum rétti „þrátt fyrir svo margar falskar staðhæfingar og lygar“. Donald Trump rak James Comey úr stöðu forstjóra FBI í byrjun maí og skýrði brotvikninguna með yfirlýsingum um að Comey hafi staðið sig illa í starfi sínu.
Í vitnisburði Comey fyrir bandaríska þinginu í gær kom fram að þó að Trump hafi aldrei beinlínis farið fram á að FBI myndi hætta rannsókn sinni á afskiptum Rússa af forsetakosningunum síðastliðið haust og óeðlilegum tengslum samstarfsamanna Trumps við rússneska embættismenn, þá hafi forsetinn gefið það sterkt í skyn á einkafundum sínum með Comey.
Comey sagðist í yfirheyrslunum hafa byrjað að skrá samtöl sín við forsetann hjá sér, enda þótti hann fundirnir vera óeðlilegir og þess eðlis að í framtíðinni gæti hann þurft að verja sig og löggæslustofnunina sem hann starfaði fyrir gegn árásum úr Hvíta húsinu.
Donald Trump virðist vera að bregðast við umfjöllun morgunþáttarins Fox and Friends á Fox News-sjónvarpsstöðinni bandarísku þar sem fjallað var um yfirheyrsluna yfir Comey.
Í lokin heldur Trump á lofti þeirri gagnrýni sem kom fram í gær af hálfu talsmanna Hvíta hússins sem undirstrikar að Comey lak minnisblöðum sínum til fjölmiðla, eftir að Trump hótaði því að gera hljóðupptökur af einkafundum þeirra tveggja opinberar.
„...and WOW, Comey is a leaker!“