Samkvæmt yfirlýsingu Persónuverndar fyrr í dag eru engar athugasemdir gerðar leit 365 miðla að þeim sem hlæðu íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar niðurhalssíður.
Í viðtali 365 miðla hf. Við fréttastofu RÚV seint í nóvember á síðasta ári kom fram að fyrirtækið hafði kært tvo menn fyrir að dreifa ólöglega höfundarréttavörðu efni. Þar sagði þáverandi forstjóri 365 miðla m.a.: „Það sem við gerum er að við fáum frá FRÍSK upplýsingar um hverjir hafa sett efnið okkar með ólögmætum hætti á netið. Og það sem viðhöfum einfaldlega gert er að skoða hverjir mögulega geti verið þarna á bak við. Og við höfum sent kæru til lögreglunnar.”
Í kjölfar viðtalsins ákvað Persónuvernd að kanna nánar þá vinnslu persónuupplýsinga sem umrætt eftirlit hefði í för með sér. Var það óttast að félagið stundaði umfangsmikið og kerfisbundið sjálfvirkt eftirlit með tilgreindum einstaklingum, en við rannsókn málsins kom hins vegar í ljós að svo væri ekki.
Í tilkynningu Persónuverndar er birt bréf lögmanns 365 þar sem ferli félagsins er lýst: Einfaldur hugbúnaður hafi verið þróaður til að fylgjast með hvort höfundavörðum titlum og verkum væri hlaðið upp á torrentsíðunni deildu.net. Þegar ákveðnum titlum er hlaðið upp á síðunni getur 365 leitast eftir IP-tölum þeirra aðila. Í bréfinu segir einnig að framangreint ferli hafi einungis verið gert í þeim tilgangi að kæra til lögreglu.