Landsbankinn gerir sátt við Samkeppniseftirlitið um aðgerðir sem stuðla að virkari samkeppni til hagsbóta fyrir heimili og lítil fyrirtæki. Aðgerðirnar eru margvíslegar, en þær eru allar til hagsbóta fyrir neytendur.
Markmið sáttarinnar er að draga úr skiptikostnaði í fjármálaþjónustu, stuðla að virkara aðhaldi viðskiptavina og vinna gegn aðstæðum sem gætu leitt til samhæfingu á viðskiptabankamarkaði. Samkeppniseftirlitið hóf viðræður þess efnis við alla viðskiptabankanna fyrir tveimur árum síðan, en viðræður við Arion banka og Íslandsbanka eru á lokastigi.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir mikilvægt að fólk og fyrirtæki gæti þess að leita ætíð bestu kjara og skilmála miðað við sínar þarfir. „Með því er veitendum fjármálaþjónustu skapað aukið aðhald sem skilar sér í virkari samkeppni þeirra á milli. Þau skilyrði sem fram koma í sáttinni við Landsbankann eiga m.a. að leiða til þess að auðveldara verði fyrir viðskiptavini að veita slíkt aðhald.”
Í kjölfar sáttarinnar mun bankinn ráðast í ýmsar aðgerðir sem eru til hagsbóta fyrir neytendur, en þær eru eftirfarandi:
- Uppgreiðslugjöld munu ekki vera lögð á hjá útistandandi lánum sem bera breytilega vexti
- Sett verða hámörk á þóknun við flutning bundins séreignasparnaðar frá bankanum.
- Íbúðakaupandi þarf ekki lengur að færa önnur bankaviðskipti til bankans sem hann greiðir íbúðalán
- Yfirtaka íbúðaláns verður ekki háð því að kaupandinn færi önnur bankaviðskipti sín til bankans.
- Tekið verður upp upplýsingatækniviðmót (e. API) sem gerir þriðju aðilum kleift að setja upp samanburðarvefsíðu sem virkjað gæti skilvirkara neytendaaðhald.
- Upplýst verður um verulegar breytingar á vöxtum og verðskrá áður en þær eiga sér stað
- Sett verður upp API-upplýsingatækniviðmót sem gerir þriðju aðilum kleift að setja upp samanburðarvefsíðu
- Tilteknir skilmálar íbúðalána sem fela í sér verulega bindingu verða ekki virkjaðir