Aleksei Navanly, höfuðandstæðingur ríkisstjórnar Vladimir Pútín í Rússlandi, var handtekinn á heimilinu sínu í kjölfar þess að hann boðaði til fjöldamótmæla í dag, á þjóðhátíðardegi Rússa. Lögreglan hefur handtekið meira en 100 manns vegna mótmælanna nú þegar.
Þann fyrsta júní boðaði Navalny til mótmæla í dag í þætti á Youtube-síðunni sinni þar sem tilgangurinn væri að sýna styrk stjórnarandstöðunnar og stuðning við forsetaframboð hans árið 2018. Mótmælin voru boðuð í 200 borgum og bæjum víðs vegar um landið. Dagurinn í dag var ekki valinn fyrir tilviljun, en hann er Dagur Rússlands, þjóðhátíðardagur Rússa.
Mótmælin voru vel sótt, en talið er að samtals hafi margir tugir þúsunda safnast saman víðs vegar um Rússland. Samkvæmt fréttaveitunni RadioFreeEurope hafa að minnsta kosti 100 verið handteknir fyrir aðild sína að mótmælunum.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Navalny hefur komist í kast við rússnesk yfirvöld, en hann var einnig handtekinn í kjölfar mótmæla sem hann stofnaði til í apríl á þessu ári. Einnig hefur hann tvisvar verið dæmdur fyrir fjárdrátt í málaferlum sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gert athugasemdir við. Ekki hefur verið sótt um leyfi hjá yfirvöldum fyrir mótmælunum og eru þau því ólögleg samkvæmt rússneskum lögum.
Navalny og yfirvöld í Kreml hafa eldað grátt silfur saman í nokkurn tíma. Fyrr á þessu ári afhjúpaði hann spillingu forsætisráðherrans, Dmitry Medvedev, með Youtube-myndbandi þar sem hann sýndi m.a. lúxuseignir ráðherrans með myndefni úr drónum. Stjórnvöld hafa svarað með þungum dómum á tveimur mótmælendum og áróðursmyndböndum gegn Navalny sem sýnd hafa verið í háskólum.
Kona Aleksei, Yulia Navalny, sagði frá því á twitter-aðgangnum sínum að mótmælin eigi að halda áfram óbreytt þrátt fyrir handtöku mannsins síns.