Robert S. Mueller III, saksóknari sem fer með rannsókn á tengslum Rússa við framboð Donalds J. Trump Bandaríkjaforseta sem og rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum, er nú að rannsaka hvort Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar.
Þetta kemur á vef Washington Post, en vitnað er til embættismanna sem blaðið fékk upplýsingar sínar frá.
Til þessa hefur ekki verið litið svo á að Trump sjálfur sé til rannsóknar, en James Comey, sem Trump rak úr forstjórastóli FBI, sagði eiðsvarinn frammi fyrir þingnefnd að hann vissi ekki til þess að Trump sjálfur hefði verið til rannsóknar. Staðan hefði ekki verið þannig, þegar hann hætti sem forstjóri.
Rannsókn Muellers hóf að beinast að forsetanum sjálfum, skömmu eftir að Trump rak Comey, og var þar sérstaklega til skoðunar hvort forsetinn hefði hindrað framgang réttvísinnar en staðfest hefur verið að FBI var með tengsl Rússa við framboð Trumps til rannsóknar þegar Comey var rekinn.
Rannsókn Muellers beinist meðal annars að aðilum innan Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, NSA, vegna rannsóknarinnar á Trump, en sú stofnun er sögð búa yfir nákvæmum gögnum um hvernig Rússa beittu tölvuárásum í aðdraganda kosninganna 8. nóvember í fyrra. Skýrslutökurnar þykja benda til þess að Mueller líti málið alvarlegum augum og að það sé meira en eitthvað orðaskak á milli forsetans og forstjórans sem hann rak.