Hlutfall umsókna um Dublin-endursendingar á hverja samþykkta hælisumsókn var fjórfalt hærra á Íslandi en í öðrum Norðurlöndum á tímabilinu 2008-2015. Ekki lítur út fyrir að hlutfallið hafi lækkað, en í ár hefur Útlendingastofnun samþykkt helmingi færri umsóknir en hún sendi til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Í tölum Útlendingastofnunar sem komu út 13. Júní kemur fram að 370 manns hafi sótt um hæli á Íslandi á fyrstu fimm mánuðum ársins. Á sama tíma hafa 52 hælisumsóknir verið samþykktar og 124 hælisleitendur sendir til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Þannig hefur Útlendingastofnun sent rúmlega tvöfalt fleiri hælisleitendur úr landi á vegum reglugerðarinnar en hún hefur samþykkt það sem af er ári. Það hlutfall samsvarar ágætlega hlutfalli Dublin-sendinga sem íslenska ríkið hefur sótt um miðað við samþykktar hælisumsóknir á árunum 2008-2015, samkvæmt Eurostat.
Dyflinnarreglugerðin hefur sætt mikilli gagnrýni í gegnum tíðina, en hún heimilar aðildarríkjum Schengen-samstarfsins að senda hælisleitendur til baka til fyrsta Evrópulandsins sem þeir komu til. Þar sem Ísland er í mjög fáum tilvikum fyrsti viðkomustaður hælisleitenda gefur reglugerðin Útlendingastofnun aukna heimild til að senda hælisleitendur úr landi á grundvelli hennar.
Reglugerðin var stofnuð með það markmið að samhæfa flóttmannastefnu aðildarríkjanna og jafna byrði hælisleitenda milli þeirra. Samkvæmt Eurostat var byrði hælisleitenda á Íslandi yfir tímabilið 2008-2015 hins vegar undir meðallagi Evrópuríkja, ef miðað er við íbúafjölda ríkjanna.
Fyrr í ár sagði Sigríður Á. Andersen, innanríkis- og dómsmálaráðherra, reglugerðina vera hornstein Schengen-samstarfsins og lýsti yfir efasemdum á hvers konar breytingum á henni.