Verkefni Reiknistofu bankanna um endurnýjun grunnkerfa hjá Íslandsbanka og Landsbankanum er enn ólokið, en því átti að ljúka fyrir ári síðan. Búist er við því að seinkunin verði kostnaðarsöm fyrir neytendur, en hann leggst að hluta til á bankana.
Í janúar 2015 samdi Reiknistofa bankanna um endurnýjun helstu grunnkerfa sinna við hugbúnaðarfyrirtækið Sopra Banking Software. Markmið samstarfsins var að auka hagræði og sparnað við endurnýjun á innlána- og greiðslukerfi Reiknistofnunar. Landsbankinn og Íslandsbanki sömdu báðir um notkun nýju kerfanna, en Arion banki ákvað að sitja hjá fyrst um sinn.
Til stóð að verkefnið myndi taka 18 mánuði, en því er ekki enn lokið. Samkvæmt heimildum Kjarnans hafði það einnig komið til umræðu á aðalfundi félagsins hversu langan tíma verkefnið hafi tekið. Í samtali við Kjarnann segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB, standa til að verkefnið muni klárast í september eða október á þessu ári. Hins vegar bendir hann á að meginmarkmiðið muni nást, núverandi lausnir í grunnkerfi bankans muni færast í nútímann.
Friðrik Þór segir að verkefnið hafi dregist vegna ýmissa ástæðna. Verið sé að innleiða kerfi í tveimur bönkum, samræma þurfi þjónustuskil á gagnalagi og ákveðið var að fara varlega af stað og starfa í sátt við Samkeppniseftirlitið. Einnig nefnir Friðrik að íslenska greiðslumiðlunarkerfið hafi valdið nokkrum töfum. Þar sem Íslendingar eru með greiðslumiðlun í rauntíma sé flóknara og tímafrekara að innleiða nýtt kerfi, og líkir hann aðgerðinni við vélaskipti á fljúgandi flugvél.
Aðspurður um hver beri kostnaðinn af þessari seinkun segir Friðrik að náðst hafi sátt milli Reiknistofu, Sopra Banking og ríkisbankanna tveggja um að deila kostnaðinum á milli sín. Ekki er vitað hversu hár kostnaðurinn er vegna seinkunar, en Friðrik segir hann vera trúnaðarmál.