Bifreið var ekið inn í hóp gangandi vegfarenda í Finsbury Park-hverfinu, við Seven Sisters Road, í norðurhluta London skömmu eftir miðnætti.
Í tilkynningu frá lögreglunni í London er atvikið sagt alvarlegt og að margir hafi slasast. Ekki er vitað á þessari stundu hvort einhver lét lífið, eða hvernig það komi til að bifreiðinni var ekið á hóp fólks.
Samkvæmt umfjöllun BBC og The Independent eru lögreglan og sjúkraflutningamenn að störfum á vettvangi. Ekki hafa komið fram upplýsingar að um hryðjuverk hafi verið að ræða, en samkvæmt lýsingum fjölmiðla og fólks á vettvangi, í gegnum samfélagsmiðla, þá eru aðstæðurnar „skelfilegar“ á vettvangi og fjöldi fólks alvarlega slasaður. Hópur múslíma var að koma frá bænastund úr mosku í nágrenninu þegar atvikið varð.
Einn hefur verið handtekinn.
Uppfært 9:17: Tveir eru mjög alvarlega særðir eftir árásina. Einn lést og tíu særðust þegar 48 ára gamall maður ók sendibifreið inn í hóp fólks á gangstétt skammt frá mosku. Öll fórnarlömb árásarinnar eru múslímar. Um hryðjuverkaárás, sem beindist gegn múslimum, er að ræða, að sögn lögregluyfirvalda í London.