Um 58% þeirra sem tóku afstöðu í viðhorfskönnun Maskínu voru hlynntir því að vopnaðir lögreglumenn séu sýnilegir á fjöldasamkomum. Hlutfall hlynntra var hæst meðal ómenntaðra og kjósenda Sjálfstæðisflokks.
Maskína birti niðurstöður sínar úr viðhorfskönnun á sýnileika vopnaðra lögreglumanna á fjöldasamkomum í dag. Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að vopnaðir lögreglumenn séu sýnilegir á fjöldasamkomum á Íslandi? Svarendur voru 1046 talsins og komu úr slembiúrtaki Þjóðskrár á aldrinum 18-75. Könnunin fór fram dagana 16.-19. júní síðastliðinn.
Meira en þrír af hverjum fjórum kjósendum Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir vopnaburðinum, en tveir af hverjum þremur kjósendum Framsóknarflokksins og Viðreisnar. Hlutfallið er mun lægra meðal kjósenda annarra flokka, en lægsta hlutfallið er meðal kjósenda Pírata, eða 14%.
Nokkur munur virtist vera á milli tekjuhópa, en um 61% svarenda í lægsta tekjuhópi voru hlynntir sýnilegum vopnaburði lögreglu miðað við rúm 42% svarenda í hinum tekjuhópunum.
Einnig voru svörin breytileg milli landshluta, en íbúar á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og Vestfjörðum virtust mun hlynntari sýnilegum vopnaburði lögreglu en íbúar annarra landshluta. Hlutfall hlynntra var lægst meðal Reykjavíkurbúa.
Mestur var munurinn þó eftir menntunarstigi, en 73,5% svarenda sem einungis höfðu lokið grunnskólaprófi svöruðu játandi á meðan einungis 28,9% svarenda sem lokið höfðu háskólaprófi gerðu það.