Bloomberg birti í dag grein þar sem fréttastofan færði rök fyrir því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ætti að skoða fjármögnun FL Group vegna hugsanlegra tengsla við Rússland.
Í fréttinni segir frá Felix Sater, fyrrverandi rekstrarstjóra fasteignasamstæðunnar Bayrock Group og dæmdum fjárglæframanni með tengingar við rússnesk glæpasamtök. Þrátt fyrir það hafi Donald Trump, Bandaríkjaforseti haldið tengslum við Sater þar sem Bayrock og Trump hafi meðal annars staðið að baki byggingu Trump Soho hótelsins í Manhattan.
Einn stærsti bakhjarl Bayrock var FL Group, fjárfestingafélag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en Bloomberg segir Sater hafa nýtt sér þensluástandið á Íslandi árið 2007 og sannfært FL Group í að fjárfesta í Bayrock.
FL Group er lýst sem hluti af hinum íslensku útrásarvíkingum, sem sumir hverjir áttu að hafa veitt óábyrg lán, verið með viðskiptatengsl milli hverja aðra og framleitt afvegaleiðandi fjárhagsupplýsingar. Einnig eru ummæli Jóns Ásgeirs í viðtali við RetailWeek rifjuð upp þar sem hann lýsir sér frekar sem rokkstjörnu heldur en viðskiptamanni. Félagið hafi síðan orðið gjaldþrota fyrst allra stórra fyrirtækja á Íslandi í október 2008.
Bloomberg spurði Ólaf Þór Hauksson, fyrrverandi sérstakan saksóknara, og Evu Joly úti í meintar tengingar FL group við styrkjum frá rússneskum sjóðum. Hvorug þeirra sögðust hafa orðið var við neitt slíkt, enda höfðu þau ekki einbeitt sér að greiðslum og samningum erlendis.
Hins vegar segir annar ónafngreindur starfsmaður sem var tengdur rannsóknum í kjölfar bankahrunsins á Íslandi að rússneskur peningur hafi líklega farið í gegnum bankana hér, en það sé umræðuefni sem Íslendingar forðist.
Boris Berezovsky, einn stærstu auðjöfra Rússlands, fannst tengingin milli Rússlands og Íslands augljós. Árið 2009 sagði hann í viðtali við SkyTV að Ísland væri besta dæmi um hugsanlegan stað þar sem Pútín Rússlandsforseti og vinir hans stunduðu peningaþvætti. Ísland á að hafa verið hluti af kerfi sem var búið til af Pútín og öðrum hátt settum rússneskum embættismönnum til að kaupa eignir utan Rússlands, að sögn Berezovsky. Hægt er að skoða viðtalið í Youtube-klippu hér að neðan, talið berst að Íslandi eftir tvær mínútur og 40 sekúndur.
Jody Kriss, innherji Bayrock, sagði Björgólf Þór Björgólfsson einnig hafa viljað fjárfesta í Bayrock Group. Fyrirtækið hafi hins vegar ákveðið að velja frekar FL Group vegna þess hve náið fyrirtækið var Pútín.
Í niðurlagi fréttarinnar segir: „Jafnvel þótt Pútín hafi ekki haft neitt að gera með FL, þá var FL tengt Bayrock með 50 milljóna dala fjárfestingu. Og Bayrock var viðskiptavinur núverandi Bandaríkjaforseta. Í ljósi þess gæti verið sniðugt fyrir dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna að skoða hvaðan peningar Bayrock og FL group komu.“