Google hefur verið sektað um 2,4 milljarðar evra, um 278 milljarða króna, af Evrópusambandinu fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína á leitarvélarmarkaði til að byggja upp netsölustarfsemi fyrirtækisins. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Rannsókn málsins hefur staðið yfir í sjö ár. Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins hafa gefið Google 90 daga til að hætta hinni ólögmætu starfsemi. Geri fyrirtækið það ekki muni dagsektir upp á fimm prósent af daglegri veltu Alphabet, móðurfélags Google, leggjast á til viðbótar.
The Guardian hefur eftir Margrethe Vestager, framkvæmdastjóra samkeppnismála innan Evrópusambandsins, að við uppbyggingu á netsölustarfsemi sinni hafi Google ekki einungis reynt að ná í viðskiptavini með því að bjóða bestu vöruna. Google hafi einnig notað yfirburði sína á leitarvélarmarkaðnum til að gera sínum netsölulausnum hátt undir höfði og gera minna úr lausnum samkeppnisaðila.
Google neitar sök í málinu.