Fjöldi fyrirtækja í afþreyingariðnaði fyrir ferðamenn hefur nífaldast á síðustu tíu árum. Einnig hefur ferðamannastraumur til Íslands hefur verið yfir öllum spám greiningardeilda síðustu fjögur árin. Þetta kemur fram í svari ferðamálaráðherra við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur um þróun ferðaþjónustu á vef Alþingis.
Fjöldi afþreyingarfyrirtækja hefur nífaldast
Mest hefur aukningin verið hjá fyrirtækjum sem bjóða upp á afþreyingu fyrir ferðamenn, en á tímabilinu 2007-2017 hefur fjöldi þeirra aukist um 800%. Á sama tímabili hefur fjöldi ferðaskrifstofa aukist um 350% og fjöldi bílaleiga aukist um 130%. Sömuleiðis hefur fjöldi menntaðra leiðsögumanna og fyrirtækja sem bjóða upp á gistingu aukist umtalsvert á svipuðu tímabili, eða um 60% og 55%.
Fjöldi ferðamanna alltaf verið yfir spám
Fjöldi ferðamanna sem komu til Íslands síðustu fjögur árin var einnig borinn saman við spár greiningadeilda þriggju bankanna. Í ljós kom að ferðamannafjöldi hefur alltaf verið meiri en spár gerðu ráð fyrir. Nokkur munur var á raun- og spágildum erlendra ferðamanna fyrir síðasta ár, en ferðamennirnir reyndust þá vera tæp 1,8 milljón, eða um 290 þúsund fleiri en hæstu spár gerðu ráð fyrir.