Einn æðsti maður kaþólsku kirkjunnar, ástralski kardinálinn George Pell, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn börnum í heimalandi sínu. Brotin voru framin fyrir tæpum fjórum áratugum. Pell er fjármálastjóri Vatíkansins og einn nánasti bandamaður Frans páfa. Hann er þriðji æðsti fulltrúi Páfagarðs, á eftir utanríkisráðherranum og páfanum sjálfum.
Pell er ákærður fyrir að brjóta gegn börnum í borginni Ballarat í Ástralíu á áttunda áratug síðustu aldar. Ástralska lögreglan segir að brotin sem hann er ákærður fyrir séu nokkur, og brotaþolarnir sömuleiðis, að því er fram kemur á vef Reuters. Hann á að mæta fyrir dómara í Melbourne 18. júlí.
Eftir að rannsóknarnefnd í Ástralíu lauk störfum, árið 2016, komst meiri kraftur í rannsóknir á kynferðisbrotum presta innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu, en umfang reyndist miklu meira en nokkurn óraði fyrir. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndarinnar voru fórnarlömb níðingsverka presta kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu 4.444 talsins, var næstum 10 prósent allra presta sem höfðu brotið af sér. Brotin voru fram í meira en þúsund kirkjum og skólum, á vegum kaþólsku kirkjunnar, og höfðu glæpirnir yfirbragð kerfisbundinnar starfsemi, að því rannsóknarnefndin upplýsti.
Meðalaldur fórnarlambananna var 10,5 ár fyrir stúlkur og 11,5 ár fyrir drengi. Í tilkynningunni frá nefndinni, sagði hún að kaþólska kirkjan hefði neitað að láta af hendi upplýsingar til nefndarinnar og ekki sýnt neinn vilja til að upplýsa um hið sanna í þeim málum sem nefndin spurði út í.