Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, gagnrýnir viðbrögð við ætlun fjármálaráðherra um afnám 10.000 króna seðilsins og segir að verið sé að skjóta sendiboðann.
Í grein sinni „Skattsvik og umræðuhefð á Íslandi“, sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar, ver Gylfi hugmyndir fjármálaráðherra um afnám stórra seðla í umferð. Hann segir hugmyndina vera margra ára gömul og væri sett fram af hagfræðingum sem vildu geta örvað eftirspurn í hagkerfinu með öflugri hætti þegar verðbólga væri engin eða neikvæð.
Án seðla í hagkerfinu væri hægt að lækka nafnvexti niður fyrir 0 án þess að fólk myndi safna seðlum og geyma þá hjá sér. Sem dæmi um ástand sem seðlalaust samfélag ætti auðveldara með að bregðast við væri til dæmis Evrukreppan sem átti sér stað fyrir nokkrum árum í Evrópu.
Einnig nefnir Gylfi að afnám seðla og myntar í umferð myndi draga úr skattsvikum og svartri atvinnustarfsemi. Hann segir það vera réttlætismál að sporna við skattsvikum og spyr hvernig sé hægt að láta suma borga skatta á meðan aðrir komast undan því. Auknar skatttekjur vegna minni skattsvika myndu einnig hafa jákvæð efnahagslega áhrif, þar sem þær opna möguleikann á að lækka skattprósentur eða auka ríkisútgjöld.
Hins vegar nefnir Gylfi að auðveldara sé að hafa eftirlit með rafrænum greiðslum og það vera gild sjónarmið að fólk vilji ekki að fylgst sé með þeim þótt engin skattsvik eigi sér stað. Í litlu samfélagi þar sem starfsfólk kortafyrirtækja geta verið nágrannar, vinir eða ættingjar geta komið upp vandræðaleg dæmi sem skerða friðhelgi einkalífsins.
Á hinn bóginn nefnir hann að með virkara eftirlitskerfi yrði einnig auðveldara að fylgjast með hvort starfsfólk hinnar nýju greiðslumiðlunar væri að hnýsast í viðskipti einstaklinga.
Enn fremur bendir Gylfi á að þótt gild rök séu með og á móti afnámi seðla og myntar í umferð hafi umræðan orðið um margt dæmigerð fyrir íslenska umræðuhefð. Í lokaorðum sínum segir hann: „Kannski væri best að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þar sem allar hliðar málsins koma fram og virðing er borin fyrir fólki sem hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur.“
Gylfi Zoëga er ekki fyrsti hagfræðingurinn sem varið hefur tillögu Benedikts um takmörkun á reiðufé, en Vísir greindi frá því að Jón Steinsson, aðstoðarprófessor við Columbia- háskólann í New York, og Gylfi Magnússon, lektor við viðskiptafræðideild HÍ, telja hana báðir vera jákvæða.