„Að sjálfsögðu hafa ákvarðanir kjararáðs áhrif á kröfugerð aðildarfélaga BHM,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, í samtali við Morgunblaðið í dag. Sautján aðildarfélög BHM losna undan úrskurði gerðardóms um kjör félagsmanna í lok ágúst og verða aðildarfélögin þá með lausa kjarasamninga við ríkið.
Eins og fram hefur komið á vef Kjarnans er mikil óánægja í röðum bæði verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélaga opinberra starfsmanna, sem og Samtaka atvinnulífsins, vegna úrskurða kjararáðs að undanförnu. Þeir hafa hækkað laun stjórnenda hjá hinu opinbera um tugi prósenta.
Fjölmargir kjarasamningar losna í framhaldi af því næsta vetur. Aðildarfélög BHM hafa ekki tekið ákvörðun um samflot í viðræðulotunni sem fram undan er heldur verða viðræðurnar við ríkið á forræði hvers félags. Þó liggur fyrir að meginkrafa BHM-félaga er að menntun verði metin til launa.
Í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag segir meðal annars, að búast megi við erfiðum kjaraviðræðum en bæði ríki og sveitarfélög hafa lýst því ákveðið yfir að þau ætli að halda sig innan þess kostnaðarramma sem lagður var með Salek-samkomulaginu á sínum tíma.