Yfirborð sjávar hækkar hraðar og hraðar með hverju ári sem líður, í takt við hækkandi hitastig á jörðinni. Vísindamenn greindu frá þessu í síðustu viku og tiltóku hraðari bráðnun Grænlandsjökuls sérstaklega í þessu tilliti.
Árleg hækkun yfirborðs sjávar var 3,3 millimetrar árið 2014, miðað við 2,2 millimetra árið 1993. Miðað við árlega hækkun sjávarborðs árið 2014 verður sjávarstaða 33 sentimetrum hærri eftir um það bil eina öld, ef ekkert verður að gert.
Það var fjölþjóðlegt teymi vísindamanna frá Kína, Ástralíu og Bandaríkjunum sem unnu rannsóknina og greindu frá niðurstöðum sínum í tímaritinu Nature Climate Change. Climate Central segir frá.
Á undanförnum 100 árum hefur yfirborð sjávar hækkað um um það bil 20 sentimetra að jafnaði. Rannsóknir benda til þess að sjávarstaða muni hækka stöðugt fram eftir 21. öldinni vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum.
Hingað til hefur það reynst erfitt að áætla hvort bráðnun íss og jökla hafi aukist, staðið í stað eða minnkað síðan árið 1990. Niðurstöður fjölþjóðlega rannsóknarteymisins benda hins vegar til þess að gervihnattagögn hafi ýkt niðurstöður sem fengnar voru með hjálp gervitungla á tíunda áratug síðustu aldar og „falið“ þróunina.
„Það hefur lengi verið stór spurning í loftslagsvísindum hvort hækkun sjávarborðs sé hraðri nú en áður. Nú eru sterkar vísbendingar komnar fram um að svo sé,“ sagði Brian Hoskins, prófessor við Imerial College í London.
„Þetta er mikilvæg aðvörun til okkar um þær hættur sem stafa af hækkun yfirborðs sjávar,“ segir Peter Wadhams, frá Cambridge-háskóla, í yfirlýsingu vegna rannsóknarinnar. Wadhams hefur meðal annars skrifað bók sem ber titilinn A farewel to ice og fjallar um áratugalangar rannsóknir hans á ísbreiðum heimsins. „Hækkun yfirborðsins mun halda áfram löngu eftir að hlýnun jarðar hefur verið stöðvuð.“
Fjórðungur sjávarhækkunar úr Grænlandsjökli
Bráðnun Grænlandsjökuls bar ábyrgð á 25 prósent sjávaryfirborðshækkunarinnar árið 2014 miðað við 5 prósent árið 1993, samkvæmt rannsókninni.
Aðrar stórar uppsprettur vatns eru í jöklum Himalayja-fjallanna, og Andes-fjalla. Þá hefur ísbreiðan á Suðurskautslandinu bráðnað mikið.
Ekki síður mikilvægur þáttur er að með hlýnun sjávar eykst rúmmál hans. Hlýnun sjávar veldur þess vegna hækkun sjávarborðs einnig.