Loftslagsbreytingar gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir býflugur í Evrópu og hlýnun jarðar eykur kynjahalla meðal skjaldbaka í Atlantshafinu.
Þetta eru niðurstöður tveggja óskyldra rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á einstaka þætti lífríkisins. Greint er frá niðurstöðunum á vef Climate News Network.
Rannsakendur við háskólan í Würzburg í Þýskalandi rannsökuðu afkomu býflugna við mismunandi aðstæður. Í rannsókninni var líkt eftir vorkomunni og býflugur látnar vakna úr vetrardvala. Vegna hlýnunar jarðar hefur vorið verið sífellt fyrr á ferðinni í Evrópu undanfarna áratugi.
Líf flugnanna er stutt en afskaplega mikilvægt fyrir umhverfið og gróðurinn. Tilgátan var sú að ef flugurnar vakna úr dvala of snemma – það er að segja áður en fæða úr plöntum er til taks – munu þær ekki lifa af.
Niðurstöðurnar benda til þess að aðeins nokkurra daga tímaskekkja geti haft gríðarlega alvarleg áhrif á líf býflugnanna. Þær flugur sem fóru á stjá of snemma áttu minni möguleika á að lifa af eða afköstuðu mun minna en þær sem höfðu strax aðgang að fæðu.
Heilt yfir voru niðurstöðurnar að vond tímasetning væri slæm fyrir flugurnar. Og plönturnar sem reiða sig á býflugur til frjóvgunar bíða eflaust skaða af.
Lífríki í Evrópu þrífst nú hærra yfir sjávarmáli en áður, enda er kaldara þeim mun ofar sem farið er. Vist- og líffræðingar eru farnir að skrásetja útdauða plantna og dýrategunda vegna þessa. Fjölbreytni þeirra tegunda sem lifa af er takmarkaðra en áður.
Fleiri kvendýr vegna hlýnunar
Í Atlantshafinu eru stórvaxnar skjaldbökur í vanda vegna hlýnunar. Þær eru ein þeirra tegunda þar sem kyn afkvæmisins ræðst af hitastigi þess á meðgöngunni. Vegna hlýnunar jarðar verða nú til fleiri kvendýr en karldýr, og mun fleiri afkvæmi deyja vegna of mikils hita.
Það voru rannsakendur við háskólann í Swansea í Bretlandi sem fylgdust með hitastigi í sandi útungunarstöðva sjávarskjaldbaka við Cape Verde í sex ár.