Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hvetur almenning til þess að senda inn hugmyndir og tillögur að aðgerðum í loftslagsmálum. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Nú er unnið að nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem á að liggja fyrir í lok þessa árs. Sú aðgerðaráætlun sem er í gildi var unnin árið 2009 og tók gildi árið 2010.
Nýja aðgerðaáætlunin á að fjalla um þær leiðir sem Ísland getur farið til þess að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum í loftslagsmálum.
Markmið Íslands, sem íslensk stjórnvöld sendu inn til loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna í aðdraganda Parísarfundarins 2015, er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 1990.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt var síðastliðinn vetur kemur fram að Ísland er fjarri því að ná þessum markmiðum. Þvert á móti hefur útstreymi gróðurhúsalofttegunda aukist á árunum síðan 1990.
Áður en markmið Parísarsamkomulagsins taka við þá gilda skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir á seinna skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnr svokölluðu. Ísland þarf að draga úr losun um 20 prósent til ársins 2020. Ljóst er að þau markmið muni ekki takast.
Óska eftir tillögum til aðgerða
Umhverfisráðuneytið óskar nú eftir hugmyndum frá almenningi um aðgerðir sem ráðast má í svo að loftslagsmarkmiðin náist. Senda má tillögurnar á veffangið loftslag@uar.is.
Tillögurnar verða birtar jafn óðum á vefsvæðinu co2.is, þar sem einnig verður hægt að finna ýmsar upplýsingar sem tengjast vinnunni við aðgerðaáætlunina.
Verkefnastjórn aðgerðaáætlunarinnar var skipuð af sex ráðherrum í ríkisstjórn Íslands í vor, eftir að þeir skrifuðu undir viljayfirlýsingu um gerð áætlunarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem aðgerðaáætlun á borð við þessa er unnin þvert á ráðuneyti. Það er auðvitað gert vegna þess að loftslagsmál eru ekki aðeins umhverfismál, heldur einnig mikilvægt efnahagslegt málefni sem og félagslegt.
Miklu munar um stóriðju
Þegar rýnt er í loftslagsprófíl Íslands sést að mestu munar um stóriðju hér á landi. Um 45 prósent allrar losunar, sé landnotkun (LULUCF) undanskilin, má rekja til iðnaðarframleiðslu. Það er einkenni á losun frá Íslandi að eitt verkefni getur haft mikil áhrif á heildarlosun á ársgrundvelli.
Ástæða þessa er smæð íslenska hagkerfisins. Eitt mengandi álver til viðbótar í kerfið getur aukið heildarlosun frá Íslandi um meira en 15 prósent, að því er kemur fram í losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kynnt var í vetur segir að ábatamestu aðgerðirnar felast í orkuskiptum í samgöngum. Mestu mundi muna um rafbílavæðingu íslenska bílaflotans.
Losunarbókhald Íslands er frábrugðið bókhöldum að því leyti að hér er ekki mikill útblástur frá orkuframleiðslu. Ísland hefur „forskot“ í þeim efnum, ef svo má að orði komast. Nærri því 80 prósent útstreymis frá því sem heitir orkugeiri (e. Energy sector) í alþjóðlegum samanburði er þess vegna frá samgöngum. Þar ber helst að nefna bílaumferð og fiskiskipaflotann sem gengur meira og minna fyrir jarðefnaeldsneyti.