Mynd: Birgir Þór

Loftslagsmarkmið nást ekki nema gripið verði til aðgerða

Markmið um 40% minni losun árið 2030 er fjarlægur draumur ef Íslendingar gerast ekki róttækari í loftslagsmálum. Umhverfisráðherra kynnir stöðumat í ríkisstjórn í þessum mánuði.

Skýrsla Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands um Ísland og loftslagsmál dregur upp mun dekkri mynd af stöðu Íslands í málefnum loftslagsins og sýnir Íslendinga í verri stöðu gagnvart markmiðum Parísarsamningsins en áður var talið. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, kynnti skýrsluna á mánudaginn var. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir niðurstöður skýrslunnar hafa komið sér á óvart.

Jafnvel þó niðurstöður skýrslunnar um stöðuna Íslands séu neikvæðar þá lýsir skýrslan einnig tækifærum fyrir Íslendinga til framtíðar á sviði loftslagsmála. Fyrir loftslagsráðstefnuna í París í desember í fyrra lögðu öll aðildarríki að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál fram sín eigin markmið í loftslagsmálum. Var það meðal annars talið til þeirra atriða sem gerðu farsæla ráðstefnu að möguleika í París.

Ísland ákvað að fylgja Evrópusambandinu (ESB) og hengja sig á markmið sambandsins um 40 prósent minni losun árið 2030 miðað við árið losun ársins 1990. Í markmiði Íslands er talað um að stjórnvöld hér á landi ætli að skuldbinda sig til ábyrgðar á „réttlátum hluta“ (e. fair share) í markmiði ESB.

Nýr umhverfisráðherra hissa á stöðunni

Björt segir skýrsluna hafa slegið sig vegna þess að hún sýni aðra og dekkri stöðu loftslagsmála en hún hafi búist við. Hún tók við embætti umhverfisráðherra í síðasta mánuði. „Að óbreyttu munum við ekki standa við Parísarsamkomulagið nema við hysjum upp um okkur buxurnar,“ sagði hún í Kastljósi RÚV á mánudag.

Björt Ólafsdóttir varð umhverfis- og auðlindaráðherra í síðasta mánuði. Í stjórnarsáttmála er aðgerðum í takt við markmið Íslands gagnvart Parísarsamkomulagið. Talsvert þarf að gerast áður en þau markmið nást.
Mynd: Birgir Þór

Á árunum 1990 til 2014 jókst útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 26 prósent, ef fráskilin er binding vegna landnotkunar. Ef nettóbinding með landgræðslu og skógrækt væri tekin með var aukningin 15 prósent. Í útblástursmælingum á Íslandi er samfélaginu skipt í sjö flokka. Það eru rafmagn og hiti, samgöngur, sjávarútvegur, iðnaður og efnanotkun, landbúnaður, meðferð úrgangs og síðast landnotkun sem getur nýst sem mótvægisaðgerð.

Mest var aukningin í útstreymi frá iðnaði frá árinu 1990 til 2014. Aukningin nam 79 prósentum. Útstreymi jókst einnig frá orkuframleiðslu um 69 prósent, frá úrgangi um 52 prósent og samgöngum um 39 prósent. Útstreymi frá sjávarútvegi dróst hins vegar saman um 43 prósent og útstreymi frá landbúnaði minnkaði um fjögur prósent. Íslendingum tókst jafnframt að binda meira af gróðurhúsalofttegundum með landgræðslu og skógrækt; um 429 þúsund tonn árið 2014. Heildarútstreymi ársins 2014 var um 4.600 tonn koldíoxíðs.

Allt að 99 prósent meira útstreymi 2030

Þegar spáð er fyrir um framtíðarútstreymi til ársins 2030 eru gerðar tvær spár; þ.e. háspá og grunnspá. Í grunnspá er reiknað með venjubundinni þróun, þe. ef við hegðum okkur eins og við gerum nú þegar. Samkvæmt háspánni má gera ráð fyrir að heildarútstreymi frá Íslandi verði 99 prósent meira en það var árið 1990. Grunnspáin gerir ráð fyrir að útstreymið verði 53 prósent meira en árið 1990.

Hér skiptir stóriðjan enn og aftur sköpum en í skýrslunni er því spáð að aukningin gæti orðið mest vegna aukinna umsvifa í stóriðju. Í grunntilviki gæti aukning útstreymis vegna stóriðju aukist um 161 prósent í grunntilviki upp í 290 prósent í hátilviki.

Í þessum háspám og lágspám er útstreymi frá stóriðju talið með. Stóriðjan fellur hins vegar ekki undir markmið Íslands í Parísarsamkomulaginu vegna þess að losunarheimildir frá stjóriðju eru framseljanlegar á markaði Evrópusambandsins með losunarheimildir. Það kann að skjóta skökku við að stærsti mengunarvaldurinn hér á landi falli ekki undir markmiðin í loftslagsmálum. Markaðurinn með losunarheimildirnar var hins vegar skapaður til þess að „jafna skellinn“ á milli ríkja sem reka mismikla stóriðju.

Stóriðja mengar lang mest allra samfélagsþátta á Íslandi. „Græn“ raforka fer þar til spillis, ef svo má að orði komast.
Mynd: Birgir Þór

Þess vegna er útstreymið einnig reiknað fram til ársins 2030 án stóriðjunnar. Þar breytist myndin talsvert. Án bindingar (og að stóriðju undanskilinni) gæti heildarútstreymi orðið tíu prósent meira árið 2030 en árið 1990 í grunntilviki. Hátilvikið er 16 prósent aukning frá 1990. Binding breytir myndinni enn frekar: 18 prósent minna útstreymi árið 2030 í grunntilviki og 12 prósent minna í hátilviki.

Brynhildur segir að það væri þungur róður fyrir Ísland að ná markmiðunum ef stóriðjan yrði ekki undanskilin. „Það eru aðgerðir í hverjum einasta geira sem hægt er að ráðast í og eru tæknilega mögulegar í dag. Nema í stóriðjunni, það er að segja,“ segir Brynhildur í samtali við Fréttablaðið.

Tæknilega mögulegt

Í skýrslunni eru listaðar leiðir til þess að draga úr losun sem eru tæknilega mögulegar. Miklar tækniframfarir hafa átt sér stað síðan sambærileg skýrsla var gerð síðast. Nærtækasta dæmið eru fullkomnari rafmagnsbílar, sem nú eru langdrægari og ódýrari og þar af leiðandi aðgengilegri en þeir voru fyrir áratug. Þá var því spáð að aðrir aflgjafar á borð við metan og vetni yrðu líklegri til þess að hljóta hylli neytenda.

Rafbílavæðing er mjög ábatasöm loftslagsaðgerð.
Mynd: EPA

Minnstu tækifærin eru hins vegar í tæknilegum lausnum á því að draga úr útstreymi frá stóriðju. Þar er ekki að eygja eins miklar tækniframfarir sem yrðu þess valdandi að hægt væri að minnka útstreymi nema um fáein prósentustig.

Yfirlýst markmið er 40 prósent minni losun en árið 1990

Augljóst er að íslensk stjórnvöld verða að taka til hendinni í þessum málaflokki ef standa á við yfirlýst markmið Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar er klausa um umhverfis- og auðlindamál. Þar segir að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju.

Enn fremur er því lofað í stjórnarsáttmálanum að gerð verði aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hyggist leggja fyrir ríkisstjórn og Alþingi skýrslu um stöðu málaflokksins í þessum mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verður um einskonar stöðumat að ræða, þar sem tækifæri verða listuð og helstu ógnir. Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum verður svo unnin á þessu ári og kynnt síðar á árinu. Um þessa áætlun er sagt í stjórnarsáttmálanum að hún „feli meðal annars í sér græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum“.

Ekki er hægt að fjölyrða um hverjar áherslurnar verða í þeirri áætlun, enda er skýrsla Háskólans nýkomin út og undirbúningur innan ráðuneytisins stutt á veg kominn.

Vinna við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum fór síðast fram eftir að sambærileg skýrsla og hér er fjallað um var kynnt árið 2009. Ári síðar var aðgerðaáætlun í loftslagsmálum samþykkt af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna – í umhverfisráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur – þar sem stefnt var að því að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um allt að 30 prósent til ársins 2020 með tíu lykilaðgerðum. Eftir þeirri aðgerðaáætlun er enn unnið opinberlega. Atriðin tíu eru kunnugleg stef umræðunni um loftslagsmál:

  1. Innleiðing viðskiptakerfis með losunarheimildir.
  2. Kolefnisgjald.
  3. Breytt kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti.
  4. Notkun ríkis og sveitarfélaga á sparneytnum og vistvænum ökutækjum.
  5. Efling göngu, hjólreiða og almenningssamgangna sem valkost í samgöngum.
  6. Notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotanum.
  7. Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja.
  8. Aukin skógrækt og landgræðsla.
  9. Endurheimt votlendis.
  10. Efldar rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum.

Ekki verður lagt mat á það hér hversu vel á veg þessi verkefni eru komin. Ljóst er hins vegar að mörg þessara verkefna krefjast aukinnar þverfaglegrar vinnu milli ráðuneyta og þvert á alla stjórnsýsluna, hvort sem það er í ráðuneytum, undirstofnunum eða meðal sveitarfélaga. Auk þess er gert ráð fyrir að fjárfest sé í innviðum, svo sem raforkuflutningi og samgönguleiðum svo aðeins tvö augljós atriði séu nefnd.

Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, kynna sóknaráætlun í loftslagsmálum í nóvember 2015.
Mynd: Birgir Þór

Í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var lögð fram sóknaráætlun í loftslagsmálum í nóvember 2015. Þar voru nokkur verkefni skilgreind sem myndu fá mest vægi meðal stjórnvalda hér á landi. Nokkur þeirra verkefna hafa þegar verið sett af stað en þau treysta að miklu leyti á framlög einkaaðila. Árlega er 250 milljónum króna veitt til verkefnanna í sóknaráætluninni á meðan hún gildir til ársins 2018.* Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, sagðist í samtali við Kjarnann í kjölfar kynningar á sóknaráætluninni, vera fráhverf því að ríkið myndi setja upp skattalega eða aðra tæknilega hvata fyrir almenning til þess að stunda „loftslagsvænni“ lífstíl. Hvatar í þeim tilgangi litu heldur ekki dagsins ljós.

Í skýrslunni sem kynnt var á mánudaginn er sviðsmynd stillt upp þar sem völdum mótvægisaðgerðum er beitt saman, án bindingar, og niðurstaðan er að hugsanlega mætti draga úr útstreymi um 1.716 þúsund tonn. Ofan á það bætist svo væntur jafn mikill kraftur í landgræðslu og skógrækt. Framreiknað gæti bindingin því numið um 2.460 þúsund tonna koldíoxíðs.

Brynhildur Davíðsdóttir segir í samtali við Fréttablaðið að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum geti skilað þjóðhagslegum ábata til lengri tíma, jafnvel þó kostnaðurinn sé mikill til að byrja með. „Þetta er eins og með hitaveituvæðinguna sem var dýr – en það má líta rafbílavæðinguna sömu augum,“ er haft eftir Brynhildi í Fréttablaðinu þriðjudaginn 14. febrúar.

Hitaveituvæðingin veitir Íslendingum forskot

Hvort sem rætt er við stjórnmálamenn eða sérfræðinga í loftslagsmálum er það mat fólks að hitaveituvæðing helstu þéttbýla á Íslandi veiti Íslendingum ákveðið forskot þegar kemur að loftslagsmálum. Með hitaveituvæðingunni á seinni hluta 20. aldar, sem var dýr framkvæmd, komst fólk undan því að kynda hús sín með dýrri mengandi olíu eða öðru jarðefnaeldsneyti. Það hefur jafnframt sparað þjóðarbúið innflutning á öllu því eldsneyti sem hefði annars þurft til þess að kynda híbýli fólks.

Ef hitaveitunnar nyti ekki myndu Íslendingar að öllum líkindum kynda hús sín með rafmagni en slík lausn er mun dýrari en jarðhitaveitan, auk þess að minna framboð væri af raforku til annara nota.

Möguleikarnir miklir ef pólitískur vilji er fyrir hendi

Af þeim aðgerðum sem óhjákvæmilega þarf að ráðast í til þess að ná markmiði Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu eru nokkur sem gætu skilað þjóðahagslegum ábata, samkvæmt skýrslunni. Hér er ekki síst rætt um jákvæð ytri áhrif af aðgerðunum. Kolefnishlutleysi á Íslandi gæti hins vegar verið fjarlægur draumur ef útstreymið frá stóriðjunni stendur í stað.

Í skýrslunni segir orðrétt: „Ljóst er að möguleikar Íslands eru miklir þegar kemur að samdrætti í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Mögulegt er að ná fram þeim samdrætti í útstreymi sem Íslendingar hafa ásett sér að ná undir Parísarsamkomulaginu, ef útstreymi frá þeim geirum sem falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir eru undanskildir. Erfitt gæti reynst að ná kolefnishlutleysi ef útstreymi frá stóriðju stendur í stað eða eykst.“

Í skýrslunni er einnig minnt á að mótvægisaðgerðirnar séu margvíslegar og að mikilvægt sé að valdar verði þær stjórnvaldsaðgerðir sem skili mestum mögulega árangri í samdrætti í útstreymi með sem minnstum þjóðhagslegum kostnaði.

Augljóst er að aðgerðaráætlun Bjartar Ólafsdóttur þarf að ganga lengra en aðgerðaáætlun Svandísar Svavarsdóttur frá árinu 2010. Og það mun þurfa að fylgja henni eftir, innan allra ráðuneyta og efla samstarf milli deilda ríkisins ef viðunandi árangur á að nást.

„Við verðum að bregðast við því sem áður hefur verið gert. Og við verðum að gera það strax því tíminn er að hlaupa frá okkur,“ sagði umhverfisráðherra í samtali á RÚV.


*Leiðrétt: Upphaflega var fullyrt í textanum hér að ofan að ekki hafi verið skilgreint hversu miklum fjármunum verði varið í sóknaráætlunina. Það er rangt því 250 milljónum verður veitt til verkefna sóknaráætlunarinnar í fjárlögum hvers árs til ársins 2018. Það hefur verið leiðrétt í textanum hér að ofan.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar