Samtök atvinnulífsins telja skynsamlegt að skattaafslættir séu veittir einstaklingum vegna hlutabréfakaupa Þetta kemur fram í tilkynningu á vef samtakanna.
Í tilkynningunni segir að aukin hlutabréfakaup einstaklinga myndi efla atvinnulífið, leiða til ábata fyrir þá sem fjárfesta og vænka hag fyrirtækja og ríkissjóðs. Líta megi til Svíþjóðar sem fyrirmyndar, en þar fá svokallaðir fjárfestingasparireikningar sérstaklega skattalega meðferð sem sé bæði einföld og gagnsæ.
Minnst er á að ákveðinn afsláttur frá tekjuskattur hefur nýlega verið settur á hér á landi til hlutabréfakaupa, en hann þurfi að uppfylla þröng skilyrði og áhrif þess hafi því orðið takmörkuð. Því séu SA þess fullviss að stjórnvöld vilji bæta þar úr, enda um sameiginlega hagsmuni fólks, fyrirtækja og stjórnvalda að ræða.
Kjarninn greindi frá því á dögunum að Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar, mældi einnig með aukinni þátttöku almennings á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Magnús minntist líka á Svíþjóð í því tilliti, en í sænskum fjárfestingasparireikningum þurfi einstaklingar einungis að greiða flatan skatt af meðalstöðu fjármagns, ekki af söluhagnaði.