Íslenska landsliðið í fótbolta mun keppa sinn fyrsta leik í C-riðli á EM 2017 í kvöld. Í ljósi þess ákvað Kjarninn að taka saman nokkra tölfræði um öll liðin í riðlinum.
Lið Frakka þykir næstsigurstranglegast í mótinu á eftir Þjóðverjum, en liðið er í þriðja sæti á styrkleikalista FIFA. Frakkar hafa líka reynst Íslendingum erfiðir, en þeir hafa unnið sjö af síðustu níu leikjum við okkur.
Hins vegar stóð lið Íslands sig frábærlega í undankeppni mótsins og skoraði 34 mörk á meðan þær fengu aðeins á sig tvö mörk. Til samanburðar skoruðu Frakkar 27 mörk, en fengu engin á sig.
Sérhver leikmaður íslenska liðsins hefur spilað um 44 landsleiki, sem er rétt undir meðaltali riðilsins. Frakkar hafa reyndustu leikmenninna, en þar er meðalfjöldi hvers leikmanns um 69 landsleikir. Austurríska landsliðið er hins vegar óreyndast, en þar hefur hver leikmaður aðeins spilað um 26 landsleiki.
Franska landsliðið hefur tekið þátt í Evrópumótinu fimm sinnum áður en Ísland er að taka þátt í þriðja sinn. Austurríki og Sviss eru aftur á móti að taka þátt í fyrsta skipti.
Ljóst er að þetta verður erfiður leikur fyrir Íslendinga. Veðbankar spá Frökkum sigri, en samkvæmt veðbankanum Bet365 er stuðullinn á þeim 1,14 á meðan hann er 23 hjá okkur.
Klukkan 18:45 hefst leikur Íslands gegn Frakklandi á EM kvenna í Tilburg, en hægt verður að fylgjast með leiknum á EM torginu við Ingólfstorg. Þetta verður fyrsti leikur Íslands af þremur í C-riðli mótsins, en þær munu síðan keppa á móti Austurríki 18. júlí og Sviss 22. júlí.