Þrjár milljónir Mercedes-Benz-bílar verða innkallaðir í Evrópu á næstunni svo hægt verði að lagfæra galla í stýrikerfi diesel-bíla sem veldur of mikilli mengun.
Samkvæmt upplýsingum frá Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz á Íslandi, hafa engar tilkynningar borist að utan um að bílar á Íslandi falli undir innköllunarskilyrðin.
Daimler, móðurfélag Mercedes, hefur sætt rannsókn yfirvalda ríkja Evrópu vegna hugsanlegra galla í eða misnotkunar á stýrikerfi dieselknúinna bíla sem veldur því að bílarnir menga mun meira í venjulegum akstri en þegar þeir eru í skoðun.
Talsmaður Daimler segir að það muni kosta um 220 milljón evrur (tæplega 27 milljarða íslenskra króna) að innkalla alla bílana sem þurfa stýrikerfisuppfærslu. Á vef breska ríkisútvarpsins BBC er haft eftir talsmanninum að ráðist væri í innköllun bílanna að frumkvæði fyrirtækisins en ekki vegna skipana frá yfirvöldum.
Daimler segist ekki ætla að rukka viðskiptavini fyrir þjónustuna sem mun standa til boða á næstu vikum. Yfirmenn Mercedes-Benz sátu fyrir svörum þýskrar þingnefndar í síðustu viku en áður hafði fyrirtækið hleypt fulltrúum samgönguyfirvalda í Þýskalandi að rannsaka útblástur Benz-bíla á nýjan leik. Þá gerði þýska lögreglan húsleit í ellefu skrifstofubyggingum Mercedes-Benz í maí.
Óskar Páll Þorgilsson, forstöðumaður þjónustusviðs Öskju, sagði í samtali við Kjarnann að engin melding hefði borist að utan um að innkalla ætti bíla á Íslandi. Hann telur það líklegra að hér séu einfaldlega engir bílar sem falla undir innköllunarskilyrðin. „Það er óvanalegt að það séu komnar fréttir um eitthvað svona og ég hafi ekki fengið e-mail um það,“ segir Óskar Páll. Hann hafi sent fyrirspurn til framleiðandans um leið og hann las fréttirnar en ekki verið búinn að fá svar þegar Kjarninn náði tali af honum.
Allt vegna Volkswagen svindlsins
Eftir að upp komst um svindl þýska bílaframleiðandans Volkswagen haustið 2015 hafa evrópsk samgönguyfirvöld hafið ítarlega rannsókn á því hvernig bílaframleiðendur skrá útblástur bíla sinna.
Langflestir – ef ekki allir – bílar sem framleiddir eru í dag eru búnir tölvustýringu sem sem skráir ýmsar hagnýtar og mikilvægar upplýsingar um bílinn, hvort sem hann er í akstri eða ekki. Þessar upplýsingar geta reynst mikilvægar fyrir ökumenn, sem fá upplýsingar um loftþrýsting í dekkjum, ástand vélar og viðvaranir um aðstæður á vegum beint í mælaborðið. Tölvutæku upplýsingarnar eru hins vegar einnig mikilvægar fyrir yfirvöld sem reiða sig á þessi tölvukerfi til þess að meta megnun frá bílunum.
Volkswagen varð uppvíst að því að svindla á mælingum útblásturs frá dieselknúnum bílum sínum í september 2015. Svindlið fólst í því að þegar bíllinn var tengdur tölvu eftirlitsaðila eða einhvers sem þurfti upplýsingar um útblástur vélarinnar, skipti tölva bílsins um gír, ef svo má segja, dró úr afli vélarinnar miðað við hvað eðlilegt getur talist og þannig minnkaði útblástur frá bílnum allt að 40-falt.
Í kjölfarið hafa yfirmenn fyrirtækisins bæði misst vinnuna og sumir eiga yfir höfði sér dómsmál vegna svindlsins. Kostnaður Volkswagen er talinn í milljörðum evra vegna svindlsins.