Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur sem hámarka leyfilegt veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána. Þetta kemur fram í tilkynningu eftirlitsins í dag.
Samkvæmt reglum sem nú taka gildi skal veðsetningarhlutfall vera að hámarki 85% af markaðsvirði fasteignar. Undanþegin eru kaup á fyrstu fasteign, en þar má veðsetningarhlutfallið vera 90%.
Samkvæmt FME er tilgangur reglnanna að varðveita fjármálastöðugleika og treysta viðnámsþrótt lánveitenda og lántaka gagnvart mögulegum viðsnúningi á fasteignaverði, þar sem vaxandi spennu gætir á húsnæðismarkaði.
Fjármálaeftirlitið tilgreinir einnig sérstaklega að þótt kveðið sé á um hámark hindri það ekki að letja lánveitendur til að beita lægri hámörkum almennt eða í einstökum tilfellum þegar við á.
Fjármálastöðugleikaráð tekur undir tillögur FME og lítur svo á að reglurnar séu til þess fallnar að mæta aðstæðum sem ógnað gætu fjármálastöðugleika eða haft óæskileg áhrif á fjármálakerfið.
Enn fremur segir Fjármálaeftirlitið að það muni meta í framtíðinni hvort tilefni sé til þess að virkja önnur þjóðhagsvarúðartæki með það að markmiði að viðhalda fjármálastöðugleika.