Skuldahlutfall Reykjanesbæjar var hæst allra sveitarfélaga árið 2015, samkvæmt nýbirtri skýrslu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Skýrslan gerði sérstaklega grein fyrir samskipti nefndarinnar við bæjarfélagið á síðustu árum.
Í gær var árskýrsla eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga fyrir 2016 birt, en hún tilheyrir Innanríkisráðuneytinu. Samkvæmt henni var rekstrarniðurstaða ársins 2015 lakari en undanfarin ár. Meginskýringin á lakari niðurstöðu hafi verið gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga Reykjavíkurborgar.
Í skýrslunni kemur einnig fram að heildarskuldir sveitarfélagana sem hlutfall af heildartekjum námu 171% árið 2015 og gert er ráð fyrir að þær séu 161% fyrir árið 2016.
Reykjanesbær tekinn fyrir
Eftirlitsnefndin hefur sett sér viðmið um 150% skuldahlutfall sveitarfélaganna, en fjölmörg sveitarfélög eru yfir því hlutfalli. Sérstaklega var fjallað um Reykjanesbæ í því tilliti, en rakin voru samskipti nefndarinnar við bæjarfélagið frá árinu 2014.
Samkvæmt nefndinni hafði samþykkt aðlögunaráætlun þess ekki verið í neinu samræmi við slæma rekstrarniðurstöðu bæjarfélagsins. Enn fremur, þar sem bænum hafði ekki tekist að ná samkomulagi við kröfuhafa sína lagði nefndin til að skipuð yrði fjárhaldsstjórn fyrir Reykjanesbæ í maí í fyrra.
Í framhaldi af tillögum eftirlitsnefndarinnar óskaði Reykjanesbær eftir frekari fresti þar sem bæjarstjórnin taldi enn vera von um að ná frjálsum samningum. Nefndin samþykkti rökstuðning bæjarstjórnarinnar og gaf bæjarfélaginu frest til 30. september.
Frestur var framlengdur og Reykjanesbær vann að samningum við kröfuhafa út árið 2016. Þann 20. Desember síðastliðinn greindi svo bæjarfélagið frá því að sátt hafi náðst við kröfuhafa sína. Þann 18. apríl samþykkti svo Reykjanesbær aðlögunaráætlun sína fyrir árin 2017 til 2022, en samkvæmt henni mun skuldahlutfall bæjarfélagsins lækka niður í 164% á næstu fimm árum.
Í lok skýrslunnar voru ársreikningar sveitafélaganna fyrir 2015 birtir, en það kemur fram að skuldahlutfall Reykjanesbæjar hafi verið 249%. Heildarskuldir bæjarfélagsins væru 43,6 milljarðar, sem jafngilti nettó skuldum á hvern íbúa upp á 2,4 milljónir króna. Samkvæmt aðlögunaráætlun bæjarfélagsins er búist við því að skuldir bæjarfélagsins muni lækka niður í 39 milljarða fyrir árið 2017.