Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu Jökulsárlóns og umfangsmikilla svæða sem liggja að lóninu. Um leið er svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu. Staðfestingin á friðlýsingunni fór fram á bökkum Jökulsárlóns í dag.
Nokkur styr hefur staðið um þessa friðlýsingu enda tekur hún til jarðarinnar Fells í Suðursveit og nærliggjandi þjóðlenda. Ríkið gekk frá kaupum á Felli í vetur. „Jörðin Fell nær yfir Jökulsárlón að hluta og á landamerki að þjóðlendum vestan vegna lónsins og norðaustur af Felli. Með friðlýsingunni nú eru þessi svæði felld inn í Vatnajökulsþjóðgarð, alls um 189 ferkílómetrar. Er Vatnajökulsþjóðgarður þar með 14.141 ferkílómetrar að flatarmáli,“ segir í tilkynningu umhverfisráðuneytisins.
Sérstaðan mikilvæg
Ástæður þess að talið var nauðsynlegt að friðlýsa svæðið og fella inn í þjóðgarðinn er sérstaða svæðisins. „Það er mótað af framgangi og hopun jökla og einkennist af sérstæðum jökulöldum,“ segir enn fremur í tilkynningu ráðuneytisins. „Ein helsta náttúruperla svæðisins er Jökulsárlón sem er stærsta og þekktasta jaðarlón á landinu.“
Innan Vatnajökulsþjóðgarðsins verður stjórnun og verndun svæðisins betur samræmd, m.a. hvað varðar umgengni og öryggi ferðamanna. Ráðuneytið segir að framundan séu krefjandi verkefni við uppbyggingu innviða og landvörslu á svæðinu.
Ennfremur er friðlýsingin liður í því að koma Vatnajökulsþjóðgarði á náttúruminjaskrá UNESCO.