Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann muni ekki leyfa transfólki að gegna herþjónustu í bandaríska hernum. Þetta skrifar hann á Twitter-síðu sína í dag.
Trump skrifaði tvær færslur (sjá hér og hér: „Eftir að hafa ráðfært mig við herforingja og hernaðarsérfræðinga, er ég ánægður með að fá þau tilmæli að bandaríska ríkisstjórnin muni ekki taka við umsóknum eða leyfa ... transfólki að gegna herþjónustu í einhverju hlutverki í bandaríska hernum.“
Hann bætti svo við: „Herinn okkar verður að leggja áherslu á algjöran og yfirgengilegan sigur og ekki má þyngja róðurinn með stórkostlegum læknakostnaði og truflunum sem transfólk í hernum hafa í för með sér.“
Hér er um töluverða stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda er að ræða enda hafði Barack Obama, forveri Trumps í embætti, komið því í gegn að transfólk gæti gengt herþjónustu í Bandaríkjunum en það hafði verið bannað.
Trump sagðist standa með réttindum transfólks í kosningabaráttunni og að hann ætlaði ekki að kasta reglugerðum Obama í þeim efnum. En þegar hann tók við embætti forseta hefur hann einmitt gert þveröfugt og til dæmis ógilt reglugerðir um réttindi transfólks í skólum um að það megi nota þau klósett sem það sýnist.