Hillary Clinton hefur lofað að fella alla múra í nýrri bók hennar sem kemur út í haust. Bókina segir hún vera sína persónulegustu hingað til en hún mun fjalla um endurminningar Clinton úr forsetaslagnum við Donald Trump á síðasta ári.
Áætlað er að bókin verði gefin út í september. Útgefandinn segir að í henni segi Clinton frá því hvernig það sé að bjóða sig fram gegn Donald Trump, hver hún telji að mistök sín hafi verið og hvernig hún hafi tekist á við þann raunveruleika sem blasti við eftir að hafa tapað fyrsta framboði konu til embættis forseta í Bandaríkjunum.
„Í fortíðinni, vegna ástæðna sem ég reyni að útskýra, hefur mér oft fundist ég þurfa að hegða mér varlega á almannavettvangi, eins og ég stæði á vír í háloftunum án öryggisnets. Nú ætla ég að fella alla múra,“ segir Clinton í tilkynningu um bókina sem mun heita What Happened.
„Bókin mun einnig gefa lesendum hugmynd um hvernig það er að bjóða sig fram sem forseta, sérstaklega ef maður er kona. Á endanum snýst það um það hvernig þú stendur aftur upp eftir ósigur,“ segir Clinton.
Upphaflega var tilkynnt að Clinton væri að skrifa stutta kafla um kosningabaráttuna. Fljótlega höfðu þessir kaflar vaxið í heila endurminningabók.
„Hún fjallar um þær áskoranir sem fylgja því að vera sterk kvenkyns fígúra í auga almennings, gagnrýni á rödd hennar, aldur og útlit, og þann tvískinnung sem mætir konum í pólitík,“ segir í tilkynningu útgefandans.
Fékk fleiri atkvæði
Hillary Clinton var frambjóðandi Demókrataflokksins í bandarísku forsetakosningunum í fyrra. Hún var talin mun líklegri sigurvegari kosninganna af nær öllum þar til á kosninganótt þegar talið var úr kjörkössunum. Þá fyrst kom í ljós að hún hafði tapað fyrir Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins.
Í kosningunum fékk Hillary Clinton mun fleiri atkvæði en Donald Trump. Kosningakerfið í Bandaríkjunum er hins vegar byggt upp þannig að kjósendur kjósa sér kjörmenn, sem síðan kjósa forseta. Trump var þess vegna kjörinn forseti því hann hlaut á endanum fleiri kjörmenn.
Clinton er fyrsta konan sem stóru valdaflokkarnir í Bandaríkjunum velja sem frambjóðanda sinn í forsetakosningum. Á kosninganótt í nóvember í fyrra hafði verið boðið kosningapartý undir stóru glerþaki, sem átti að vera táknrænt þegar hún myndi stíga fram og flytja ræðu sína sem nýkjörinn forseti Bandaríkjanna; Búin að brjóta hæsta og þykkasta glerþakið í bandarískum stjórnmálum.
Það varð hins vegar ekki.