Landsframleiðsla Svíþjóðar óx um 1,7% síðustu þrjá mánuðina, sem samsvarar 4% hækkun á ársgrundvelli. Einnig er tiltölulega mikill hagvöxtur í Bandaríkjunum og öðrum ESB-löndum, á meðan hægir á breska hagkerfinu. Þetta kemur fram á frétt The Guardian fyrr í dag.
Uppsveifla Vesturlanda
Bjartar horfur eru á Evrusvæðinu um þessar mundir, en samkvæmt nýbirtum tölum Evrópusambandsins hefur bjartsýni meðal aðildarríkja þess í efnahagsmálum ekki verið meiri síðan fyrir fjármálahrunið 2008.
Aukin bjartsýni er einnig í takt við hagvaxtartölur margra Evrópusambandsríkja fyrir annan ársfjórðung 2017, en landsframleiðsla Frakklands, Spánar og Svíþjóðar hefur aukist töluvert á tímabilinu. Í Frakklandi var hagvöxturinn 0,5%, eða 1,8% á ársgrundvelli, en búist er við heilbrigðum vexti út árið ef breytingar á vinnumarkaði ná fram að ganga.
Á Spáni náði hagvöxturinn 0,9% fyrir sama tímabil og 3,1% á ársgrundvelli. Með því hefur landsframleiðsla Spánar loksins orðin jafnmikil og rétt fyrir fjármálakreppuna.
Mestur var hagvöxturinn þó í Svíþjóð, eða um 1,7% á einum ársfjórðungi og 4% á ársgrundvelli. Vöxturinn fór langt fram úr væntingum greiningaraðila, en þeir spáðu um 1% vexti. Helsti drifkraftur hagvaxtarins þar í landi virðist vera peningamálastefna landsins, en stýrivextir seðlabankans eru þar neikvæðir í -0,5%, sem hvetur til aukinnar lántöku.
Í Bandaríkjunum hefur hagvöxtur einnig tekið kipp en þar mælist hann um 0,65% fyrir annan ársfjórðung, eða 2,6% á ársgrundvelli. Þetta er meira en tvöfalt hærri vaxtartölur en á fyrsta ársfjórðungi, en hagvöxturinn var að mestu drifinn áfram af aukinni einkaneyslu.
Ársfjórðungsvöxtur landsframleiðslu Bretlands frá 2008
Brexit-vandræðin
Bretland virðist missa af uppsveiflu Vesturlandanna, en ársfjórðungsvöxtur þar í landi náði ekki nema 0,3%, sem var í takt við væntingar sérfræðinga. Breska hagkerfið hefur átt erfitt uppdráttar síðastliðna 13 mánuði eftir Brexit-atkvæðagreiðsluna, en pundið hefur lækkað, iðnaðaframleiðsla dregist saman og verðbólga aukist. Kólnun hagkerfisins má sjá í hagvaxtartölum landsins síðustu tvo ársfjórðungana, en þær eru nokkuð undir meðaltali síðustu ára eins og sjá má á mynd hér að ofan.