Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hótað kreditkortafyrirtækinu Visa sektum fyrir möguleg brot á samkeppnislögum. Þetta kemur fram í frétt Reuters.
Möguleg brot Visa snúa að sérstökum færslugjöldum sem fyrirtækið bætir við á öllum færslum á Evrópska efnahagssvæðinu hjá kreditkortum sem gefin eru út utan Evrópu. Líta má á færslugjöldin sem eins konar ferðamannaskatt, þar sem ferðamenn utan Evrópu borga hærra gjald fyrir allar færslur en Evrópubúar.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sent kreditkortafyrirtækinu svokallað sektarblað (charge sheet) sem Visa þarf að svara innan tveggja mánaða.
Gerist Visa sek um að hafa brotið samkeppnislög gæti fyrirtækið þurft að borga sektir sem nema allt að 10% veltu kortafyrirtækisins á alþjóðavísu, eða um 820 milljarða Bandaríkjadala ef miðað er við veltu fyrirtækisins árið 2016.
Framkvæmdastjórnin hefur áður gert athugasemdir við færslugjöld Visa, en fyrir þremur árum ákvað kreditortafyrirtækið að leggja niður færslugjöld milli banka í kjölfar rannsóknar Evrópusambandsins.