Netflix Inc. framkvæmdi sína fyrsta yfirtöku á mánudaginn, en streymisveitan tók yfir rekstur myndasöguútgefandans Millarworld. Þetta kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins.
Millarworld, sem er í eigu rithöfundarins Mark Millar, hefur staðið að baki mörgum myndasögum, en þekktastar þeirra eru „Kick-Ass“ og „Kingsman.“ Samkvæmt frétt Reuters eru þessar tvær sögur þó undanþegnar yfirtökunni, en allar aðrar myndasögur útgefandans munu fylgja með auk þess sem fleiri verði framleiddar fyrir streymisveituna.
Yfirtakan er keimlík kaupum Disney á ofurhetjuvörumerkið Marvel Studios árið 2009, en Ted Sarandos, yfirmaður útgáfu Netflix, líkti Mark Millar við Stan Lee, manninn á bak við „Spider-Man,“ „Avengers“ og „X-Men.“
Með yfirtökunni er steymisveitan að færa sig að auknum krafti inn á markað ofurhetjumynda-og þátta, en margar þáttaraðir úr smiðju Marvel, líkt og „Jessica Jones,“ „Luke Cage“ og „Daredevil,“ hafa notið mikilla vinsælda á Netflix.
Fyrstu viðbrögð fjárfesta við yfirtökunni virtust nokkuð góð, en í kjölfar fréttatilkynningarinnar hækkaði hlutabréfavirði Netflix um 1% um tíma á mánudaginn.