Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir samkeppnisyfirvöld verði að taka tillit til þess að samkeppnisumhverfið hérlendis sé að gjörbreytast og að það verði að fylgjast með þeirri þróun sem nú sé að eiga sér stað á smásölumarkaði. Það sé áhyggjuefni ef að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Haga og Lyfju, þar sem eftirlitið ógilti samruna félaganna tveggja, verði ávísun á það sem komi skuli í sambærilegum málum sem eftirlitið hefur nú til meðferðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hagar eru stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi. Það rekur meðal annars verslanir Bónus og Hagkaupa. Félagið, sem er skráð á markað og er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, hefur reynt að bregðast við innkomu alþjóðlegra stórfyrirtækja, sérstaklega Costco og H&M, á íslenskan markað með ýmsum hætti. Á meðal þeirra aðgerða sem félagið greip til var að loka flestum tískuvöruverslunum sem það rak, fækka fermetrum sem það var með starfsemi sína á og með sameiningum, en Hagar samþykktu í fyrrahaust að kaupa Lyfju af íslenska ríkinu á 6,7 milljarða króna og í apríl síðastliðnum að kaupa Olís á 9,1 milljarð króna. Samkeppniseftirlitið hefur, líkt og áður sagði, ógilt samrunann við Lyfju en er með samrunann við Olís til meðferðar. Festi, sem rekur m.a. verslanir Krónunnar og er einnig með umtalsverða markaðshlutdeild á dagvörumarkaði, hefur einnig brugðist við innkomu alþjóðlegra fyrirtækja með því að loka verslunum, fækka fermetrum og með því að sameinast olíufélaginu N1. Sá samruni bíður einnig samþykkis Samkeppniseftirlitsins.
Hagar eru ósammála niðurstöðunni og hafa tvívegis sent frá sér afkomuviðvörun á síðustu mánuðum þar sem greint var frá sölusamdrætti eftir að Costco hóf starfsemi í maí síðastliðnum. Í tilkynningu til Kauphallar á föstudag sagði að gera mætti ráð fyrir að EBITDA Haga verði um 20 prósent lægri fyrir tímabilið mars til ágúst 2017 en á sama tímabili í fyrra.
Markaðsverð Haga hefur einnig hríðfallið síðan að Costco opnaði. Alls hefur markaðsvirði Haga lækkað úr 64,6 milljarði króna daginn áður en að Costco opnaði, í 46,1 milljarða króna, eða um 18,5 milljarða króna.
Andrés segir í Fréttablaðinu í dag að þróunin á markaðnum sé gríðarlega hröð. Samkeppniseftirlitið megi hafa sig allt við ef það ætlar að fylgjast með henni. „Það er afskaplega hætt við því að forsendur sem liggja fyrir ákvörðun sem er tekin á ákveðnum tímapunkti verði orðnar úreltar skömmu síðar. Það er stóra áhyggjuefnið[...]Við gjörbreyttar kringum stæður leita verslanir auðvitað leiða til að ná fram eins mikilli hagræðingu og hægt er.“
Hann segir ekkert benda til þess að Samkeppniseftirlitið hafi í ákvörðun sinni í máli Haga og Lyfju tekið tillit til áhrifanna af komu Costco.