Ný drög að loftslagsúttekt vísindamanna hjá bandarískum alríkisstofnunum sem send hefur verið forsetaembættinu í Washington fjallar um þær loftslagsbreytingar sem þegar hafa orðið í Bandaríkjunum.
Skýrsluhöfundarnir eru afdráttarlausir í þeirri fullyrðingu um að það sé ákaflega líklegt að athafnir manna séu ástæða þess að áhrif loftslagsbreytinga gæti nú þegar. Þessi fullyrðing er vitanleg andstæð fullyrðingum og trú forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, sem þegar hefur afnumið reglugerðir um aðgerðir í loftslagsmálum og dregið stuðning Bandaríkjanna við Parísarsamkomulagið til baka.
Þess vegna ákváðu skýrsluhöfundarnir að leka drögum af skýrslunni til fjölmiðla eftir að sömu drög voru send til forsetans. Í frétt The New York Times segir að vísindamennirnir hafi verið hræddir um að stjórn Trumps myndi breyta skýrslunni eða halda henni leyndri.
Drögin að skýrslunni sem send var fjölmiðlum má lesa í heild sinni á vefnum hér. (Athugið að skjalið er 63mb að stærð).
Viðbrögð stjórnar Trumps við loftslagsskýrslunni munu hafa mikil áhrif á stefnu og ákvarðanir í loftslagsmálum í Bandaríkjunum á næstu árum. Bandaríkin eru í öðru sæti á eftir Kína yfir mest mengandi ríki heims.
Jafnvel þó skýrslan fjalli aðeins um áhrif loftslagsbreytinga í Bandaríkjunum sjálfum þá er hún áhugaverð lesning. Á vef bandaríska dagblaðsins The New York Times eru talin til níu lykilatriði úr skýrslunni. Þau má lesa í lauslegri þýðingu hér að neðan.
Það er heitt úti
Það hlýnar alls staðar í Bandaríkjunum, þá sérstaklega í vestlægum ríkjum. Að jafnaði hækkaði árshitastig um 1,2 gráður á Farenheit (0,67 gráður á Celsíus) í Bandaríkjunum á seinni helmingi síðustu aldar. Hitabylgjur og þurrkar hafa náð hámarki sums staðar í Bandaríkjunum, jafnvel þó sandstormatíð fjórða áratugsins í Norður-Ameríku sé enn hlýjasta skeið í sögu Bandaríkjanna.
Meira votviðri við austurströndina
Jafnvel þó skýrslan geti ekki fullyrt um að sterkir fellibyljir verði tíðari, þá þykir ljóst að fellibyljir muni bera með sér meira votviðri en nokkru sinni og hafa meiri eyðileggingarmátt.
Slæmar fréttir fyrir Kaliforníu
Hlýnun mun að öllum líkindum auka á minnkun snjólags í Kaliforníu sem er grunnstoð í vatnsforða ríkisins. Ef útstreymi gróðurhúsalofttegunda verður áfram mikið og ef ekki verður hagrætt í rekstri vatnsbóla mun það valda langvarandi vatnsskorti í framtíðinni.
Þegar rignir, þá hellirignir
Nú þegar gætir áhrifa loftslagsbreytinga í formi öfgafyllri rigninga í Bandaríkjunum. Þegar stormviðri síðustu 30 ára eru borin saman við storma á árunum 1900 til 1960 kemur í ljós að úrkoma hefur aukist um allt að þriðjung. Mest er aukningin í norðausturríkjum Bandaríkjanna og minnst í vestustu ríkjunum.
Sjávarföll hafa þegar valdið vandræðum
Vaxandi sjávarflóð eru þegar farin að valda flóðum í þéttbýli. Flóð í borgum – bæði á vestur- og austurströndinni – munu verða verri á næstu áratugum. Samkvæmt gögnunum munu borgir jafnvel verða fyrir flóðum á hverjum degi vegna sjávarfalla, eins og til dæmis í Charleston í Suður-Karólínu. Lægstu staðirnir í San Francisco eru einnig taldir vera í mikilli og tíðri flóðahættu.
Mismunandi áhrif hækkunar sjávarborðs
Stór svæði í Bandaríkjunum munu finna fyrir hækkun yfirborðs sjávar. Gert er ráð fyrir að strandlengjan við Mexíkóflóa og Norðausturströnd Bandaríkjanna muni verða verst úti, ekki síst vegna náttúrlegs landbrots. Sjávarstraumar, selta sjávar og aðrir þættir hafa mikið um það að segja hversu mikið vandamál sjávarborðshækkun kann að verða.
El Niño er ekki eilífur
Veðurfyrirbrigðið El Niño í Kyrrahafinu hafði mikið að segja um að hitamet á jörðinni féllu árin 2015 og 2016. Þesslags veðurfyrirbrigði hafa hins vegar takmörkuð áhrif á hnattræna og staðbundnari þróun loftslags yfir lengra tímabil. Heldur eru áhrifin skammvinn; Þau geta teygt sig yfir mánuði og jafnvel ár.
Maðurinn ber ábyrgð
Skýrslan skilur ekki eftir neinn efa um hver ábyrgð mannkyns sé á hlýnun loftlags á jörðinni: „Það er ákaflega líklegt að áhrif athafna mannsins séu yfirgnæfandi ástæða þess að loftslagsbreytingar hafi orðið síðan um miðja síðustu öld.“ Engar aðrar sannfærandi útskýringar geta skýrt niðurstöður gagnasöfnunarinnar.
Undirbúum óvæntar uppákomur
„Mannkynið er að framkvæma fordæmalausa tilraun á hnattrænum kerfum með gríðarmiklum bruna á jarðefnaeldsneyti og víðtæku skógarnámi,“ segir í skýrslunni. Jafnvel þó tölvulíkön hafi orðið fullkomnari með árunum þá geti ekkert líkan tekið tillit til allra þeirra flóknu þátta sem knýja loftslag jarðar. Í skýrslunni er varað við þýðingarmiklum og óvæntum loftslagstengdum uppákomum í framtíðinni. Þessar uppákomur geta verið margar ofsafengnar náttúruhamfarir á sama tíma. Þeim mun meira sem við breytum loftslaginu þeim mun líklegri verða þessar óvæntu uppákomur.