Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að fátt geti betur tryggt Íslendingum samkeppnishæft matvælaverð en aukin samkeppni í landbúnaði. Það sé löngu tímabært að horfast í augu við þann mikla kostnað sem vernd gagnvart slíkri samkeppni veldur íslenskum neytendum. Það sé ekkert náttúrulögmál að við séum með eitt hæsta matvælaverð í heimi og þau miklu áhrif sem innkoma Costco á íslenskan smásölumarkað, og áhrif IKEA á vöruverð á sínum markaði hérlendis, sýni hversu mikilvæg öflug og góð samkeppni sé fyrir lífsskilyrði okkar. „Það er löngu tímabært að breyta þessu. Látum hagsmuni almennings ráða för.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Þorsteinn birti í gær.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, endurskipaði í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga í lok janúar síðastliðins. Samkvæmt fréttatilkynningua var sérstaklega horft til þess að auka vægi umhverfis- og neytendasjónarmiða í hópnum, sem á að ljúka störfum sínum fyrir árslok 2019. Nýir búvörusamningar voru samþykktir á Alþingi í fyrrahaust, í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, og gilda til tíu ára. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra er 13-14 milljarðar króna á ári og þeir festa þá verndar- og niðurgreiðslustefnu sem ríkt hefur í íslenskum landbúnaði kyrfilega í sessi næstu árin. Í þessum tölum er ekki tekið tillit til viðbótarkostnaðar neytenda vegna kerfisins, en matarkarfan hérlendis er ein sú dýrasta í heimi, og mun dýrari en það sem greitt er fyrir hana í nágrannalöndum okkar. Björt framtíð greiddi ein stjórnmálaflokka í heild sinni atkvæði gegn samningunum, og rauk nægjanlega mikið upp í fylgi í kjölfarið til að tryggja sér áframhaldandi veru á þingi. Flokkurinn myndaði í kjölfarið ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, öðrum þeirra flokka sem stóðu að gerð og undirritun nýrra búvörusamninga, og Viðreisn, sem Þorsteinn og Þorgerður Katrín sitja bæði á þingi fyrir.
Vill Costco og IKEA áhrifin á landbúnað
Undanfarna mánuði hefur Costco hrisst verulega upp í íslenskum dagvörumarkaði. Fyrirtækið opnaði verslun sína í Garðabæ í maí og fyrstu vikurnar var nánast fullt út að dyrum alla daga. Í könnun sem gerð var um miðjan júni, innan við mánuði eftir opnun Costco, kom fram að 43 prósent landsmanna sögðust hafa farið í Costco frá því að verslunin opnaði. Önnur 49 prósent sögðust ætla að fara við tækifæri en einungis 7,7 prósent landsmanna sögðust að þeir ætli ekki að fara. Áhrif Costco hafa verið víðtæk. Þannig hefur stærsta smásölufyrirtæki landsins Hagar, sem reka meðal annars verslanir Bónus og Hagkaupa, tvívegis sent frá sér aðkomuviðvörun vegna samdráttar í sölu sem rekja má til opnunar Costco. Hlutabréfaverð í Högum hefur lækkað um tæp 35 prósent á tæpum þremur mánuðum.
Þorsteinn segir í stöðuuppfærslu sinni að þau miklu áhrif sem innkoma Costco á íslenskan smásölumarkað hefur haft sýni hversu mikilvæg öflug og góð samkeppni er fyrir lífsskilyrði okkar. „Áhrifa Costco gætir víða, hvort sem horft er til verðlagningar heimilistækja, hjólbarða, fatnaðar, eldsneytis eða matvæla. IKEA er annað dæmi um erlenda verslunarkeðju sem hefur haft mikil og góð áhrif á vöruverð hér á landi og áhugavert verður að fylgjast með áhrifum H&M á íslenska fataverslun þegar fyrsta verslunin opnar síðar í þessum mánuði.
Erlend samkeppni veitir innlendum aðilum nauðsynlegt aðhald, lækkar vöruverð fyrir okkur öll og tryggir meira vöruúrval en ella. Við eigum sífellt að leitast við að tryggja sem mesta samkeppni til að tryggja sem lægst vöruverð og mestan kaupmátt. Um það eru flestir landsmenn vafalítið sammála. Við viljum að lífskjör hér á landi standist samanburð við nágrannalönd okkar á öllum sviðum samfélagsins, hvort sem horft er til launa, vaxtakostnaðar eða vöruverðs.“
Þorsteinn segir að þetta leiði hugann að ýmsum þeim mörkuðum sem enn búa við ríka vernd frá samkeppni og það háa verð sem íslenskir neytendur greiði fyrir þá vernd. Matvörumarkaðurinn sé þar augljóst dæmi. Með stöðuuppfærslu sinni birtir hann mynd sem sýni grófan samanburð á kostnaði matarkörfunnar eftir löndum. Matvöru sé skipt í tvo flokka, innlenda matvörur sem nýtur ríkrar innflutningsverndar, (mjólk, kjöt og ostar) og aðra matvöru sem nýtur lítillar eða engrar verndar (innlend og erlend). Á myndinni sem Þorsteinn birtir má sjá að kostnaður matarkörfunnar hér á landi trónir á toppinum í þessum samanburði.
„Hár kostnaður þeirra matvæla sem njóta ríkrar verndar skýrir stærstan hluta þess munar. Það er hins vegar mun minni verðmunur er á milli landa þegar kemur að þeim vörum sem búa við lítt eða óhefta samkeppni. Það sýnir ótvírætt kosti samkeppninnar, ekki aðeins hér á landi heldur ekki síður í samanburðarlöndunum.
Fátt gæti betur tryggt Íslendingum samkeppnishæft matvælaverð en aukin samkeppni í landbúnaði. Það er löngu tímabært að horfast í augu við þann mikla kostnað sem verndin veldur íslenskum neytendum. Það er ekkert náttúrulögmál að við séum með eitt hæsta matvælaverð í heimi. Það er löngu tímabært að breyta þessu. Látum hagsmuni almennings ráða för.“