Opið er fyrir umsóknir í frumkvöðlakeppnina Gulleggið til 16:00 fimmtudaginn 21. september næstkomandi. Keppnin sjálf fer fram í september og október, en hún hefur vanalega verið haldin í febrúar og mars. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Gulleggsins.
Gulleggið var síðast haldið í vor, en Kjarninn fjallaði um tíu stigahæstu hugmyndir sem tóku þátt í lokakeppninni þann 15. Mars síðastliðinn. Hugmyndin SAFE Seat hlaut vinninginn þá, en hún snerist um fjaðrandi bátasæti sem vernda hryggsúluna í erfiðu sjólagi.
Keppnin fagnaði einnig 10 ára afmæli sínu í vor, en mörg þeirra fyrirtækja sem tekið hafa þátt eru orðin að stórfyrirtækjum í dag. Af fyrri þátttakendum má nefna Meniga, Karolina Fund, Clara, eTactica, Nude Magazine, Róró – Lulla Doll, Pink Iceland og Cooori.
Gulleggið leitar nú að þáttakendum, en opið er fyrir umsóknir fram í september. Allir hafa þátttökurétt og er kostnaðarlaust að senda inn hugmynd og fá endurgjöf á viðskiptaáætlun. Hægt er að skrá sig með eða án hugmyndar, en þeir sem skrá sig án hugmyndar eiga kost á því að komast inn í teymi.
Auk þátttakenda leitar Gulleggið að nýútskrifuðum vöruhönnuðum úr Listaháskóla Íslands til þess að hanna verðlaunagripinn í haust, gegn greiðslu. Þetta hefur verið gert síðustu ár, en samkvæmt tilkynningu Gulleggssins hefur hefðin sett skemmtilegan svip í gegnum árin og alltaf vakið mikla lukku. Áhugasamir hönnuðir eru hvattir til að hafa samband á gulleggid@icelandicstartups.is.