Netttenging með breiðbandi var sú fjórða hraðasta í heimi á Íslandi í júlí, en hún var einungis hraðari í Singapúr, Suður-Kóreu og Hong Kong. Þetta kemur fram í nýbirtum lista SpeedTest.
Fyrir þremur dögum síðan tilkynnti SpeedTest heimslistana sinn þar sem löndum er raðað eftir hraða nettengingar þeirra, annars vegar með breiðbandi og hins vegar í gegnum síma. Þetta er í fyrsta skiptið sem fyrirtækið birtir slíkan lista á alþjóðavísu, en samkvæmt tilkynningu munu þeir birtast mánaðarlega héðan í frá.
Listinn tekur saman prófanir allra notenda SpeedTest og aðgreinir þær eftir tíma og löndum. Samkvæmt fyrirtækinu nær fjöldi prófana hundruðum milljóna, en úr næst góð mynd af meðalhraða nettengingar þegar allar prófanir eru safnaðar saman.
Heimslisti Speedtest nær til yfir 190 landa, en til þess að teljast með á honum þurfa lönd að hafa meira en 3.333 prófanir frá meira ein 670 einstökum notendum á hverjum mánuði.
Í fjórða sæti
Ísland kemur vel út í alþjóðlegum samanburði þegar litið er á tengingu með breiðbandi í júlí, en samkvæmt listanum var meðalhraði niðurhals hér á landi sá fjórði hæsti í heiminum, 110,52 megabitar á sekúndu. Hraðasta breiðbandstengingin var í Singapúr, en þar náði meðalhraðinn 154,38 megabitum á sekúndu. Í öðru og þriðja sæti voru svo Suður-Kórea með 125,69 megabita á sekúndu og Hong Kong með 117,21 megabita á sekúndu.
Þegar kemur að hraða nettengingar í gegnum síma nær Ísland þó aðeins í tíunda sætið, en meðalhraði símaniðurhals náði 36,84 megabitum á sekúndu í júlí. Símnetið var hraðast í Noregi, en þar var meðalhraði niðurhals 52,59 megabitar á sekúndu.
Venesúela hlýtur þann vafasama heiður að vera landið með hægustu breiðbandstengingu í heimi, en hún náði einungis 3,20 megabitum á sekúndu í júlí. Botnsætið í símnetshraða vermir svo Írak, en þar var meðalhraðinn 3,03 megabitar á sekúndu í síðasta mánuði.
Lista yfir tíu hröðustu breiðbandstengingarnar má finna hér að neðan:
Breiðbandstengingar í júlí 2017, samkvæmt SpeedTest
Sæti | Land | Niðurhalshraði í Mb/s |
---|---|---|
1 | Singapúr | 154,38 |
2 | Suður-Kórea | 125,69 |
3 | Hong Kong | 117,21 |
4 | Ísland | 110,52 |
5 | Rúmenía | 91,48 |
6 | Macau | 80,11 |
7 | Sviss | 74,20 |
8 | Svíþjóð | 73,66 |
9 | Bandaríkin | 70,75 |
10 | Litháen | 67,29 |