Töluverð viðskipti áttu sér stað við opnun Kauphallarinnar í dag, en gengi Icelandair hefur styrkst enn frekar á sama tíma og hlutabréf Haga halda áfram að falla niður.
Meirihluti viðskipta dagsins í Kauphöllinni hafa verið í fyrirtækjunum tveimur, eða 840 milljónir af 1493. Frá opnun markaða í morgun hafa hlutabréf í Högum lækkað um 4,22% í 349 milljóna króna viðskiptum, en hlutabréf Icelandair hafa hækkað um 1,98% í 491 milljóna króna viðskiptum.
Kjarninn greindi frá kaupum lykilstjórnenda í Icelandair síðasta föstudag, en Björgólfur Jóhannesson, forstjóri fyrirtækisins, og Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála flugfélagsins, keyptu hlutabréf í því fyrir tæplega 18 milljónir króna. Í kjölfarið rauk hlutabréfagengi félagsins upp, en virði hlutabréfa þeirra höfðu aukist um 6,69% í 1.222 milljóna króna viðskiptum við lokun markaða á föstudaginn.
Hlutabréf í Högum hafa verið á hraðri niðurleið undanfarna daga, en félagið sendi frá sér afkomuviðvörun eftir lok markaða föstudaginn 4. ágúst. Viðvörunin sýndi spá um 20% minni framlegð yfir sumarmánuðina í ár miðað við í fyrra, en í henni segir einnig að ljóst sé að „breytt staða á markaði hefur mikil áhrif á félagið.“
Fyrirtækið hefur átt erfitt uppdráttar allt frá komu Costco, en daginn fyrir opnun bandaríska vöruhússins stóð markaðsvirði Haga í 64,6 milljörðum króna. Í dag stendur markaðsvirði þess í 42,3 milljörðum króna.