Eina EES-landið
Umsögn Viðskiptaráðs er um drög að frumvarpi um póstþjónustu sem birt voru á vef Stjórnarráðsins fyrir mánuði síðan. Í drögunum er lagt til að einkaréttur ríkisins verði lagður niður og opnað fyrir samkeppni á póstmarkað, en þannig yrði hagkvæm lágmarksþjónusta tryggð um allt land.
Samkvæmt drögunum að lagafrumvarpinu eiga umræddar breytingar sér langan aðdraganda. Einkaréttur ríkisins á póstþjónustu var skilgreindur í lögum árið 1940, en frá 1998 hefur dregið úr honum eftir breytingum á reglugerðum Evrópusambandsins.
Núgildandi lög eru frá 2002, en samkvæmt þeim eru bréf undir 50 grömmum háð einkarétti. Frumvarpið, sem búist er við að verði lagt fram í haust, er byggt á tilskipun Evrópuþingsins frá árinu 2008. Öll önnur ríki innan EES hafa þegar innleitt tilskipunina og fellt einkarétt hins opinbera á póstþjónustu úr gildi
Viðskiptaráð segist fagna þessu skrefi og tekur heilshugar undir meginefni frumvarpsins. Samkvæmt umsögninni telur ráðið afnám einkaréttar vera fyrsta skrefið í átt að viðunandi póstþjónusta verði stunduð á hagkvæman hátt, í virku samkeppnisumhverfi og með lágmarkskostnaði fyrir hið opinbera.
Í hópi með Samkeppniseftirlitinu
Viðskiptaráð eru ekki einu samtökin sem gagnrýnt starfsemi Íslandspósts, en í febrúar síðastliðnum setti Samkeppniseftirlitið fyrirtækinu skilyrði um breytingar á starfsemi þess. Voru skilyrðin sett til þess að vinna á móti samkeppnishömlum sem séu til staðar vegna markaðsráðandi stöðu Íslandspósts.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var kærð af Póstmarkaðnum ehf. og móðurfélagi þess, Samskipum ehf., þar sem þeir töldu ekki vera tekið nægt tillit til kvartanna þeirra. Í dag sendi Samkeppniseftirlitið hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest ákvörðun eftirlitsins og stendur hún því enn.
Í dýrari kantinum
Töluverður kostnaðarmunur er á póstþjónustu Íslands og annarra landa, ef marka má verðskrár nágrannalandanna. Grafið hér að neðan sýnir verð á B-póstsendingu innanlands á 20 gramma bréfi. Upplýsingar eru fengnar frá Íslandspósti auk póstfyrirtækja í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku.
B-Póstsendingar á Íslandi eru dýrastar allra Norðurlanda, en mestur er munurinn 50% milli Íslands og Svíþjóðar.
Hagfræðistofnun hefur klárað skýrslu um verðlagningu á grunnþjónustu Íslandspósts, en skýrslan verður birt á vef stjórnarráðsins á næstu dögum.