Hillary Clinton, fyrrverandi frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra, segist hafa fyllst viðbjóði þegar Donald Trump stillti sér ítrekað upp fyrir aftan hana þegar hún svaraði spurningum í kappræðum þeirra á milli í október í fyrra.
Hún greinir frá þessu í nýrri bók sem kemur út í næsta mánuði. Í bókinni, sem kallast What Happened, fjallar Clinton um kosningabaráttuna í Bandaríkjunum gegn andstæðingi sínum Donald Trump. Clinton tapaði kosningunum jafnvel þó hún hafi fengið fleiri atkvæði, en Trump hlaut fleiri kjörmenn.
Hljóðbrot úr bókinni hafa verið birt á vef NBC-fréttastofunnar.
Í kappræðunum sátu frambjóðendur fyrir svörum frá almenningi úr sal. Um mun frjálsara fyrirkomulag var að ræða en í hinum kappræðunum sem þau Clinton og Trump háðu, og frambjóðendurnir gengu um sviðið og ávörpuðu fyrirspyrjendur. Nokkrum sinnum á meðan Clinton hafði orðið virtist sem Trump elti hana og stillti sér óþægilega nálægt fyrir aftan hana. Clinton segist hafa velt fyrir sér eftir á hvort hún hafi átt að snúa sér við og segja honum: „back up, you creep“.
Þetta voru aðrar kappræður þeirra af þremur í kosningabaráttunni og Clinton mældist með ágætt forskot í skoðanakönnunum. Umræddar kappræður fóru fram í Missouri 9. október í fyrra, aðeins tveimur dögum eftir að hljóðupptaka var gerð opinber þar sem Trump heyrist grobba sig af kynferðisáreiti.
„Þetta er ekki í lagi, hugsaði ég,“ skrifar Clinton í bókinni. „Þetta voru aðrar kappræðurnar og Donald Trump vofði yfir mér. Þetta var lítið svið og hvert sem ég gekk um það elti hann mig, starði á mig og gretti sig. Það var mjög óþægilegt. Hann andaði bókstaflega ofan í hálsmálið á mér. Ég fylltist viðbjóði,“ skrifar Clinton.
„Þetta var þess konar augnablik þar sem þú óskaðir þess að geta stöðvað sýninguna og spurt alla sem horfðu: „Jæja, hvað myndir þú gera?“ Myndir þú halda ró þinni, halda áfram að brosa og sinna þínu eins og ef hann væri ekki ítrekað að ráðast að þínu persónulega rými? Eða myndir þú snúa þér við, horfast í haugi við hann og segja hátt og skýrt: Færðu þig, ógeð. Farðu í burtu frá mér. Ég veit að þú hefur gaman af því að kúga konur en þú kúgar mig ekki.“
Clinton segist hafa valið fyrsta kostinn. „Ég hélt ró minni, studdist þar við langa reynslu af því að eiga við erfiða karla sem kappkosta við að koma mér úr jafnvægi,“ segir hún en veltir þó fyrir sér hvort hún hafi átt að velja seinni kostinn. „Það hefði sannarlega gert betra sjónvarp. Kannski treysti ég of mikið á reynslu mína af því að halda ró minni, bíta í tunguna og grafa neglurnar í lófana – á sama tíma brosa, staðráðin í að halda stilltu andliti gagnvart heiminum.“