Angela Merkel, kanslari Þýskalands og leiðtogi stærsta stjórnmálaflokks landsins, Kristilegra demókrata, var ótvíræður sigurvegari fyrstu og einu kappræðanna sem haldnar eru í aðdraganda þingkosninga í lok mánaðarins.
Merkel atti kappi við Martin Schulz, leiðtoga Sósíal demókrata, í sjónvarpskappræðum í gærkvöldi. Kappræðurnar eru sagðar hafa verið besti möguleiki Schulz til þess að rétta kosningabaráttu sína við en flokkur hans er nú með um 15 til 17 prósentustigum minni stuðning en flokkur Merkel.
Jafnvel þó Merkel hafi ekki þótt hafa borið af í samanburði við fyrri kappræður sem hún hefur tekið þátt í, þá sögðust 49 prósent svarenda í könnun sem gerð var eftir kappræðurnar að Merkel hefði verið trúverðugri. Aðeins 29 prósent sögðu Schulz hafa haft betur. Frammistaða Merkel var auk þess talin vera meira sannfærandi af 55 prósent svarenda, miðað við 35 prósent svarenda sem sögðu Schulz hafa staðið sig betur.
Kosningar fara fram í Þýskalandi 24. september næstkomandi. Merkel sækist þar eftir endurkjöri og umboði til þess að gegna stöðu kanslara fjórða kjörtímabilið í röð.
Þrátt fyrir að flokkur Merkel hafi forystu í skoðanakönnunum segjast margir vera óvissir um hvaða flokk þeir ætli að kjósa. Kappræðurnar voru þess vegna taldar vera mikilvægur liður í að sannfæra óákveðna kjósendur.
Kosningabaráttan í Þýskalandi hefst nú fyrir alvöru, en strangar reglur gilda um kosningaáróður í aðdraganda kosninga þar í landi.
Ræddu mest um flóttamannavandann
Martin Schulz virtist leggja áherslu á að ræða málefni Tyrklands og flóttamanna enda eru það þau mál sem Merkel hefur helst verið gagnrýndi fyrir í aðdraganda kosninganna. Fjallað er um kappræðurnar á vef The Guardian.
Merkel segist enn trúa því að ákvörðun sín um að opna landamæri Þýskalands fyrir metfjölda flóttamanna sem streymt hafa til Evrópu á undanförnum árum hafi verið rétt. Merkel þurfti að verjast ásökunum Schulz um að hafa látið það hjá líða að hafa Evrópusambandið með í ráðum þegar borgarhliðin voru opnuð fyrir flóttamönnum sumarið 2015.
Schulz náði einnig að virkja varnir Merkel þegar hann sakaði kanslarann um að líta framhjá áhyggjum kjósenda af hækkandi kostnaði við það eitt að búa í Þýskalandi. Þar hefur leiguverð hækkað og laun lækkað, í það minnsta er ójöfnuður að aukast. Schulz gagnrýndi einnig stuðning ríkisstjórnar Merkel við þýska bílaframleiðendur þrátt fyrir dísilsvindl fyrirtækjanna.
Náði ekki að skilja sig frá Merkel
Flokkur Martin Schulz, Sósíal demókratar, hefur verið í samsteypustjórn með flokki Merkel, Kristilegum demókrötum, undanfarin fjögur ár. Það var þess vegna helsta verkefni Schulz að skila stefnumál sín frá Merkel í kappræðunum. Honum tókst það illa og oft og tíðum var sem þau væru sammála um þau málefni sem til umræðu voru.
Schulz hefur 23 ára reynslu sem þingmaður í Evrópuþinginu. Hann var kjörinn leiðtogi Sósíal demókrata í janúar og þá mældist stuðningur við hann sem kanslaraefni mikill í skoðanakönnunum. Síðan hefur hallað undan fæti og Merkel og flokkur hennar hefur sótt í sig veðrið.