Stórir fjárfestar hyggjast setja meira af peningum í tækni til þess að bregðast við lofslagsmálum, ef marka má könnun sem gerð var meðal 497 fagfjárfesta fyrir HSBC-bankann í Bretlandi.
Meira en helmingur þeirra fjárfesta sem tóku þátt í könnuninni sögðust fá „mjög ófullnægjandi“ upplýsingar frá fyrirtækjum um rekstraráhættur vegna þess sem rekja má til loftslagsbreytinga. Þá segjast fjárfestarnir vanta upplýsingar um hver hagnaðargeta fyrirtækja sé við umbreytingu í umhverfisvænni tækni.
Meira en tveir þriðju hlutar þeirra fagfjárfesta sem tóku þátt í könnuninni áætla að auka græna fjárfestingu sína. Frá þessu er greint á vef viðskiptadagblaðsins Financial Times.
Niðurstöður könnunarinnar þykja renna stoðum undir það sem seðlabankastjóri Bretlands, Mark Carney, hefur ítrekað bent á; Fyrirtæki í hlutafélaga- og fjármálarekstri þurfa að upplýsa um loftslagsáhættu í mun meira mæli en nú er gert.
Carney hefur átt sæti í verkefnahóp um gagnsæja loftslagstengda fjármálastarfsemi. Michael Bloomberg fór fyrir þessum verkefnahóp sem skilaði lokaskýrslu sinni í sumar. Kjarninn fjallaði um lokaskýrsluna við það tilefni.
Vantar betri skilning á loftslagstengdri áhættu
Í skýrslu verkefnahópsins er það útskýrt hvernig fyrirtæki ættu að veita loftslagstengdar upplýsingar í fjárhagsskýrslum, svo hægt sé að leggja mat á loftslagstengda áhættu í hagkerfum heimsins. Mælt er með að upplýsingar um beint og óbeint útstreymi gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins komi fram. Einnig ættu fyrirtækin að lýsa áhættu og tækifærum fyrirtækisins sem verða til vegna loftslagsbreytinga.
Carney seðlabankastjóri hefur varað fjárfesta við og sagt þá hætta á „mögulega risastórt“ tap vegna áhrifa loftslagsbreytinga á fyrirtæki í margskonar iðnaði. Sem dæmi má nefna að tryggingafélög tapa nú meira en nokkru sinni vegna ofsaveðurs í heiminum, og framleiðendur jarðefnaeldsneytis eru sakaðir um að bera ábyrgð á hlýnun jarðar.
Græn fjárfesting vinsælust í Evrópu
Í niðurstöðum könnunarinnar sem gerð var fyrir HSBC kemur fram að stjórnendur eru nú uppteknari en áður af tækifærum og ógnunum sem tengjast viðbragði við loftslagsbreytingum.
Áhugi á grænni fjárfestingu, eins og til dæmis endurnýjanlegri orku, var mestur í Evrópu. 97 prósent evrópskra þátttakenda í könnuninni sögðust hafa í hyggju að auka fjárfestingu sína í kolefnissnauðari tækni eða tækifærum tengdum slíkri tækni.
85 prósent fjárfesta í Norður- og Suður-Ameríku sem tóku þátt í könnuninni segja slíkt hið sama, eins og 68 prósent fjárfesta í Asíu. Í Mið-Austurlöndum, þar sem mest magn olíu heimsins verður til, sögðust aðeins 19 prósent þátttakenda í könnuninni ætla að auka græna fjárfestingu.
Daniel Klier, yfirmaður stefnumótunar hjá HSBC, sagði í samtali við Financial Times að niðurstöðurnar gæfu til kinna að græn fjárfesting væri ekki lengur aðeins af siðferðilegum toga heldur orðin hluti af daglegri ákvörðunartöku fjárfesta.