Sala á lambakjöti innanlands í ágúst var 48 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt nýjum tölum frá Matvælastofnun.
Þá var útflutningur lambakjöts 131 prósenti meiri í ágúst á þessu ári en í fyrra.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag, en haft er eftir Steinþóri Skúlasyni, forstjóra SS, að markaðsstarf erlendis sé nú farið að bera mikinn árangur. Frá því í vor, þegar átak hófst, hafi 800 tonn verið flutt úr, en söluaukning innanlands er meðal annars vegna
Um 723 tonn af lambakjöti voru seld innanlands í ágúst og 225 tonn voru flutt út.
Yfir 300 milljónum var varið í markaðsátak erlendis, en ríkið lagði til hlutafjármagnsins beint og þá kom féð einnig úr búvörusamningi og með framlagi sláturleyfishafa.
Staða sauðfjárbænda hefur verið erfið að undanförnu. Tillögur stjórnvalda vegna yfirstandandi erfiðleika í sauðfjárrækt munu kosta ríkissjóð um 650 milljónir króna, komi þær til framkvæmda.
Samkvæmt þeim verður gripið til umfangsmikilla aðgerða til að draga úr framleiðslu kindakjöts og fækka um leið fé um 20 prósent. Þeir bændur sem hætta sauðfjárframleiðslu munu geta haldið 90 prósent af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár og gripið verður til sértækra aðgerða til að draga úr yfirvofandi kjaraskerðingu bænda. Á móti verður þess krafist að búvörusamningur sauðfjárbænda, sem var undirritaður í fyrra og gildir til tíu ára, verði endurskoðaður.