Bjarni Benediktsson gekk á fund forseta Íslands í morgun og baðst lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, féllst á það og óskaði eftir því að ríkisstjórnin myndi starfa í starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn verði mynduð.
Bjarni óskaði ekki eftir því að Guðni myndi staðfesta þingrof. Alþingi starfar þess vegna áfram fram að kosningum. Ný ríkisstjorn verður ekki mynduð fyrr en eftir kosningar, sem Bjarni hefur lagt til að fari fram 4. nóvember næstkomandi. Bjarni vonast til þess að geta samið um þá dagsetningu við þingflokka á Alþingi.
Spurður hvort honum sé stætt í ríkisstjórn segir Bjarni að það sé venjan að ráðherrar eru beðnir um að sitja áfram. Ráðgjafaráð Viðreisnar hefur ályktað um að Viðreisn geti ekki starfað í ríkisstjórn þar sem Bjarni og Sigríður Andersen gegna ráðherraembætti. Bjarni segist ekki sækja umboð sitt til ráðgjafaráðsins.
„Menn verða að rísa undir þeirri skyldu að starfa áfram,“ segir Bjarni. Spurður um hvað þeir Guðni hafi rætt sagði Bjarni: „Við áttum bara mjög fínan fund, ræddum um stjórnmálin og þessa atburði sem hafa verið á undanförnum árum.“
Spurður hvort þetta mál hafi haft persónuleg áhrif á Bjarna og fjölskyldu hans, þar sem faðir hans hefur verið til umfjöllunar vegna þess að hann vottaði meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing. „Það getur ekkert mál komið upp á milli okkar feðganna, sem truflar okkar trúnað og traust,“ svaraði Bjarni.
„Mín vonbrigði eru ekki persónuleg vonbrigði. Ég er ekki í stjórnmálum til þess að uppfylla persónulegan metnað. Mín vonbrigði eru einfaldlega brosnar vonir fyrir það ráðuneyti sem ég var að skila inn umboði fyrir núna.“
Þétt dagskrá á Bessastöðum
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tekur á móti öllum formönnum stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi í dag. Næstur formannana er Katrín Jakobsdóttir sem á tíma hjá forseta klukkan 13 í dag.
- 11:00 – Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
- 13:00 – Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs
- 13:45 – Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata
- 14:30 – Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins
- 15:15 – Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar
- 16:00 – Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar
- 16:45 – Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar