Nú hafa 58 lönd, að Íslandi meðtöldu, tekið höndum saman til að stöðva viðskipti með varning sem nýttur er til pyntinga og dauðarefsinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Alþjóðabandalagi um pyntingalaus viðskipti hefur verið hleypt af stokkunum. Ísland gerðist aðili að bandalaginu þann 18. september með þátttöku Einars Gunnarssonar sendiherra. Þetta sameiginlega átak Evrópusambandsins, Argentínu og Mongólíu, með aðild alls 58 landa, miðar að því að stöðva viðskipti með varning sem beitt er við dauðarefsingar og pyntingar.
Í tilkynningunni kemur fram að samkvæmt alþjóðalögum séu pyntingar bannaðar undir öllum kringumstæðum. Þrátt fyrir það fari fram verslun um allan heim með búnað sem er til þess eins að valda kvölum og dauða. Til slíks búnaðar teljast gaddakylfur, raflostsbelti, griparmar sem veita raflost, efnasambönd sem notuð eru við aftökur og tilheyrandi búnaður til þvingaðrar lyfjagjafar.
Gleðiefni að svo mörg lönd taki þátt
Cecilia Malmström, viðskiptastjóri Evrópusambandsins, segir að þessar vörur þjóni engum tilgangi öðrum en að valda skelfilegum sársauka og drepa fólk. „Við ættum aldrei að heimila verslun með þær eins og hvern annan varning. Nú grípum við til áþreifanlegra aðgerða til að stöðva þessi fyrirlitlegu viðskipti.
Ég hef margoft hitt þolendur pyntinga – flóttafólk, samviskufanga, fanga sem bíða dauðarefsingar. Ég er sannfærð um að nýta megi viðskiptastefnur landa til að styrkja mannréttindi um allan heim. Því er mér það mikið gleðiefni að svo mörg lönd skuli taka þátt í yfirlýsingunni og ganga til liðs við bandalagið,“ segir hann.
Vilja stýra og takmarka útflutning
Á setningarathöfninni lögðust 58 lönd um allan heim á eitt, í Afríku, Ameríku, Evrópu og Asíu, með sameiginlegri pólitískri yfirlýsingu. Með því að undirrita hana hafa löndin sem eiga aðild að bandalaginu samþykkt aðgerðir í fjórum liðum.
Í fyrsta lagi ætla löndin að beita úrræðum til stýringar og takmörkunar útflutnings á vörum sem þessum. Í öðru lagi að veita tollyfirvöldum viðeigandi viðbúnað en bandalagið mun koma á laggirnar vettvangi til að fylgjast með viðskiptaflæði, skiptast á upplýsingum og bera kennsl á nýjar vörur. Í þriðja lagi að bjóða löndum heims tæknilegan stuðning við setningu og framkvæmd laga til að banna þessi viðskipti. Og í fjórða og síðasta lagi að skiptast á aðferðum við skilvirka, kerfisbundna stýringu og framfylgd.
Hertar reglur hefta aðgang að hættulegum varningi
Ennfremur kemur fram í tilkynningunni að ströng löggjöf Evrópusambandsins um viðskipti með vörur sem nýttar eru til pyntinga og dauðarefsingar hafi þegar skilað árangri. Hún bannar útflutning á slíkum vörum, ásamt vöruflutningi þeim tengdum, kynningu, miðlunarþjónustu og ýmissi aðstoð, og felur í sér flýtimeðferð til að banna nýjar slíkar vörur á markaðnum. Það er meðal annars fyrir tilstilli þessara hertu reglna sem erfiðara hefur orðið að nálgast, og dýrara að kaupa, banvæn sprautulyf.
Hins vegar leggja framleiðendur og söluaðilar slíks varnings sig fram við að sneiða hjá lögunum. Af þeim sökum verður viðleitnin til að binda endi á viðskiptin því árangursríkari sem fleiri lönd banna þau. Bandalag um pyntingalaus viðskipti er aðferð til að taka ákveðin skref til að stöðva verslun með þennan varning á alþjóðavettvangi og gera umtalsvert torsóttara að nálgast hann.