Fækka þarf sveitarfélögum og skilgreina þau verkefni sem sveitarfélag verði að geta sinnt eitt og óstutt. Einnig verður að hækka lágmarksíbúafjölda í þremur þrepum á árunum 2019 til 2026 og festa hann í lög. Þetta kemur fram í tillögum starfshóps um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem settar voru fram í júlí síðastliðnum. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, kynnti á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga haustið 2015 að hún hefði hug á að setja á laggirnar nýja nefnd til að skoða leiðir til eflingar sveitarstjórnarstigins. Í lok árs 2015 skipaði hún fimm manna verkefnisstjórn sem fékk það hlutverk að greina íslenska sveitarstjórnarstigið og skilgreina bæði tækifæri og leiðir til að styrkja það enn frekar.
Þá vakti athygli starfshópsins að sveitarstjórnarfólk hafnar algjörlega hugmyndum um þriðja stjórnsýslustigið, þ.e. að mynda stjórnsýslustig milli sveitarfélaga og ríkis.
Samkvæmt tillögunum myndi hækkun lágmarks íbúafjölda fara fram í þremur þrepum. Þann 1. janúar 2019 tækju gildi lög þess efnis að 1. janúar 2026 skuli lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga vera 1.000 íbúar. Gefinn verði aðlögunartími þannig að 1. janúar 2020 skuli lágmarksíbúafjöldi vera 250 íbúar og 1. janúar 2022 skuli lágmarksíbúafjöldi vera 500 íbúar.
Fyrsta skrefið að sameina sveitarfélög
Í viðtali við RÚV segir Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, að hann telji að allir geti verið sammála um að fyrsta skrefið sem lagt er til í þessari skýrslu verði stigið, þ.e. að ekkert sveitarfélag verði með færri en 250 íbúa. Honum finnist liggja í augum uppi að sveitarfélag með innan við 250 íbúa sé varla í stakk búið til að sinna þeim skyldum sem á það eru lagðar. Einnig geti landfræðilegar aðstæður verið þannig að sameining sé ómöguleg og að taka þurfi tillit til þess. Sveitarfélögin eru nú 74 en 14 þeirra uppfylla ekki þau lágmarksskilyrði sem lögð eru til fyrir árið 2020.
Jón segist hallast að því að ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga liggi hjá íbúum þeirra en í skýrslunni er lagt til að sameiningar sveitarfélaga sem komi til vegna lögbundins lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga verði ekki bornar undir íbúa í atkvæðagreiðslu.
Þarf sjálfbæran rekstur og þjónustu
Í tillögunum kemur fram að til þess að ná því markmiði að efla sveitarstjórnarstigið þurfi þjónusta og rekstur að geta staðið undir sér í sveitarfélögin. Starfshópurinn leggur til að hluti af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði nýttur til að auðvelda sameiningu, t.d. þannig að ólík fjárhagsstaða sveitarfélaga komi ekki í veg fyrir sameiningu. Samhliða fækkun sveitarfélaga verði hafist handa við gerð langtíma stefnumótunar til 20 ára fyrir sveitarstjórnarstigið í samtali og samráði beggja stjórnsýslustiga þar sem vinnan grundvallast á fækkun sveitarfélaga í þrepum.
Fjármögnun sveitarfélaga skuli stuðla að hagkvæmu skipulagi sveitarstjórnarstigsins og afnema þurfi alla fjárhagslega hvata sem vinna gegn sameiningu sveitarfélaga. Einnig þurfi stjórnvöld að taka markvissari þátt í verkefninu um styrkingu sveitarstjórnarstigsins og fjárfesta í því.
Stækka sveitarfélög áður en verkefni verði flutt til
Starfshópurinn leggur til að verkefni verði flutt til sveitarfélaga. Það sé mikilvægt að stíga fyrsta skrefið að fækkun og stækkun sveitarfélaga áður en rætt verður um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með tilflutningi verkefna. Verkefni verði flutt þegar skipulag sveitarstjórnarstigsins leyfi og lögð verði áhersla á að ákvörðun um fjármögnun, ábyrgð og skyldur ríkis og sveitarfélaga, hvors um sig, liggi fyrir.
Einnig er lagt til að ábyrgð sveitarfélaga á opinberum fjármálum og samspili þeirra við hagstjórn verði styrkt. Greiðslur ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð eða framlög úr Jöfnunarsjóði verði breytileg eftir stöðu hagkerfisins, lækki þegar aðrir tekjustofnar eru sterkir og hækki þegar aðrir tekjustofnar eru veikir. Eftir því sem umfang sveitarstjórnarstigsins eykst, því mikilvægari verður ábyrgð þess á opinberum fjármálum og samspili við hagstjórn.
Vilja efla samtal milli íbúa og kjörna fulltrúa
Ennfremur er ráðlagt í tillögunum að sérstök höfuðborgarstefna verði mótuð í samvinnu við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög. Þetta sé mikilvægt ekki síst í því ljósi að í sveitarstjórnarlögum er ekkert kveðið á um hverjar skyldur höfuðborgar Íslands eigi að vera.
Verkefnisstjórn leggur til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og sveitarfélög leiti leiða til að efla leið samtala og samráðs íbúa og kjörinna fulltrúa. Markmiðið sé að auka virkni og aðkomu íbúa við ákvarðanatöku og stefnumótun í stað íbúakosninga. Endurskoða þurfi ákvæði sveitarstjórnarlaga hvað þetta varðar.
Vinna mun halda áfram
Samgönguráðherrann segir jafnframt í fyrrnefndu viðtali að vinna muni halda áfram með tillögurnar þrátt fyrir að ekki verði af frumvarpi sem stóð til að leggja fram í haust. Þrátt fyrir breyttar aðstæður á þingi muni Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, fara fyrir hópi sem nú tekur við. Koma verði í ljós hvort þær tillögur komist áfram.