Rafmagnsleysi var algjört í Púertó Ríkó eftir að fellibylurinn María fór þar yfir í gærmorgun. Afleiðingarnar eru miklar en hvassvirði og úrkoma hefur valdið gríðarlegu tjóni. Óljósar fréttir eru af mannfalli en talið er að í það minnsta 19 hafi látist af völdum fellibylsins á eyjum Karíbahafsins og margra er enn saknað.
Ríkisstjóri Púertó Ríkó, Ricardo Rossello, gaf út útivistarbann sem mun gilda í kvöld og fram á laugardaginn. Hann segir fellibylinn vera versta óveður sem skolið hefur á í heila öld á svæðinu en talið er að uppbygging muni taka marga mánuði. Ekki liggur enn fyrir nákvæmlega hver eyðileggingin er en ljóst er að hún er mikil. Fellibylurinn nálgast nú Turks- og Caicos-eyjarnarnar.
Kalla eftir hjálp frá alþjóðasamfélaginu
Fellibylurinn fór yfir karabíska ríkið Dóminíku og olli miklu tjóni og stórskemmdum seint á mánudaginn síðastliðinn. Minnst 15 manns létust og 20 er saknað. Forsætisráðherrann, Roosevelt Skerrit, greindi frá því í sjónvarpsviðtali að kraftaverk væri að ekki hafi farið verr og að fleiri hefðu ekki dáið. Frá þessu er greint á BBC.
Skerrit segir að hann hafi aldrei fyrr séð slíka eyðileggingu en fjöldi húsa, heimila og skóla hefur verið lagður í rúst. Fjarskipti eru í ólagi og samkvæmt nýjustu fréttum er stærsti spítali eyjunnar enn án rafmagns. Hann segir jafnframt að nú þurfi eyjaskeggjar á hjálp frá alþjóðasamfélaginu að halda.
Þriðji fellibylurinn á jafnmörgum vikum
Fólk hefur verið duglegt að deila myndum og frásögnum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #hurricaneMaria.
Þetta er þriðji karabíski fellibylurinn sem skellur á eftir jafnmargar vikur og er María næststærstur af þeim. Í byrjun september fór fellibylurinn Irma yfir svæðið en hægt er að lesa nánar um hann á Kjarnanum.
María fór á fjórða stig yfir skala frá einum og upp í fimm þegar stóð sem hæst. Mikil flóð hafa orðið, tré rifnað upp með rótum og meira en 10.000 manns leitað skjóls Púertó Ríkó í sérstökum skýlum á miðvikudagskvöldið. Þetta er stærsti fellibylurinn til að fara yfir bandaríska jörð í um 90 ár.