Konur í Sádí-Arabíu munu fá leyfi til að taka bílpróf og keyra bíl í júní á næsta ár. Um þetta var tilkynnt í landinu í dag, en fram til þessa hafa konur ekki haft leyfi til að keyra bíl samkvæmt lögum landsins. Skipun um þessa breytingu hefur þegar verið undirrituð af Salman konungi.
Í þessu konungsveldi búa konur við viðvarandi frelsisskerðingar af ýmsu tagi, meðal annars þegar kemur að ferðamátum, klæðnaði og atvinnuréttindum. Þessi ákvörðun nú þykir mikill sigur í réttindabaráttu kvenna í landinu, en staðan er þó enn órafjarri því sem þekkist á vesturlöndum eða í flest öllum ríkjum heimsins.
Samkvæmt umfjöllun The Guardian vöktu ummæli eins trúarleiðtogans í landinu, sem starfar sem klerkur, mikla athygli en hann hélt því fram að eggjastokkar kvenna myndu skemmast ef konur myndu fara að keyra um göturnar í Sádí-Arabíu. Þá lét hann þau orð falla einnig að það gæti skapað vanda fyrir karlmenn í umferðinni ef konur færu allt í eingu að keyra bíla.
Engin rök fylgdu með þessum orðum, en þau féllu í grýttan jarðveg hjá þeim sem berjast fyrir auknum réttindum kvenna í landinu.
Í Sádí-Arabíu ræður ríkjum vellauðug konungsfjölskylda, sem nýtur góðs af olíuauðlindum landsins. Í landinu búa tæplega 33 milljónir manna.