Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segist enn ekki hafa ákveðið hvort hann ætli að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningum á næsta ári. Þó Pútín segist vera óákveðinn er hann af flestum talinn vera líklegasti sigurvegari kosninganna.
„Ég er á ekki aðeins eftir að ákveða hverjir fá að fara í framboð gegn mér, ég á einnig eftir að ákveða hvort ég fari í framboð yfir höfuð,“ er haft eftir Pútín á vef Reuters. Hann svaraði spurningum blaðamanna á orkuþingi í Moskvu.
Pútín sagði að þeir sem ætluðu að gefa kost á sér þyrftu ekki að tilkynna um framboð fyrr en í kringum mánaðamótin nóvember - desember.
Ef forsetinn ákveður að gefa kost á sér telja flestir að hann muni sigra með yfirburðum, enda muni enginn áreiðanlegur frambjóðandi gefa kost á sér gegn sitjandi forseta.
Rússneskir dómstólar fangelsuðu helsta stjórnarandstæðing Pútíns, Alexei Navalny, á mánudag og settu þess vegna áætlanir Navalny um að taka þátt í kosningabaráttunni með gagnrýnum hætti í uppnám.
Navalny situr inni í 20 daga í þetta sinn, en það þýðir að hann getur ekki tekið þátt í fjöldafundi í Sankti Pétursborg, heimaborg Pútíns, á laugardaginn afmælisdag forsetans.
Jafnvel þó Navalny sé einn helsti gagnrýnandi Pútíns sýna skoðanakannanir að hann myndi tapa stórt í kosningum gegn Pútín.