Ný gögn sem Stundin birtir í samstarfi við breska blaðið The Guardian og Reykjavik Media,, í eigu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, sýna að Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður og núverandi starfandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni, fyrir um 50 milljónir króna, dagana fyrir bankahrunið, eftir að hafa meðal annars setið fund sem þingmaður um alvarlega stöðu bankans, og miðlað þeim áfram til bankamanna.
Þetta kemur fram í fyrrnefndri umfjöllun.
Dag neyðarlaganna, þann 6. október, miðlaði hann upplýsingum um störf FME til framkvæmdastjóra hjá Glitni.
Gögnin sýna einnig að Bjarni byrjaði að selja hlutabréf sín í Glitni fyrir um 120 milljónir króna tveimur dögum eftir að hann fundaði sérstaklega með bankastjóra Glitnis sem þingmaður.
„Síðasta sala Bjarna á eignum sínum í Sjóði 9 átti sér því stað sama dag og Geir H. Haarde hélt fræga ræðu sína og neyðarlögin voru sett. Þennan dag seldi Bjarni hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 fyrir 21 milljón króna en þetta var síðasti dagurinn þar sem opið var fyrir viðskipti með eignir í Sjóði 9. Bjarni hafði reyndar ekki mikinn tíma til þess að selja þennan dag þar sem sjóðnum var lokað klukkan 11.29 en þá ákvað Fjármálaeftirlitið að loka fyrir öll viðskipti með hlutabréf íslensku viðskiptabankanna þriggja. Bjarni hafði því einungis tímann frá opnun markaða þann daginn og fram til klukkan 11.29 til að selja eignirnar í Sjóði 9.
Samkvæmt tölvupóstum og viðskiptakvittunum frá Glitni gekk Bjarni frá sölunni í Sjóði 9 fimmtudaginn 2. október en tekið var fram að hún ætti ekki að ganga í gegn fyrr en mánudaginn 6.
Þann 2. október 2008, klukkan 20.49, sendi starfsmaður í einkabankaþjónustu Glitnis tölvupóst til þeirrar deildar Glitnis sem sá um viðskipti með Sjóð 9. Efni tölvupóstsins var: „Losun á Bjarna Ben 7829 (ekki fyrr en 6.10.)“ Í tölvupóstinum stóð. Hæ. Fæ ég leyfi á að selja sj 9 21.000.000 og kaupa í sj 5 og 7 í staðin.“ Þetta var samþykkt morguninn eftir, föstudaginn þriðja, og fékk starfsmaður einkabankaþjónstunnar eftirfarandi tölvupóst frá starfsmanni í skjaladeild Glitnis: „Búið að losa Sj9.“
Áður hafði Bjarni selt hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 í þrennum viðskiptum fyrir tæplega 30 milljónir króna þann 2. október. Auk þessa hafði Bjarni selt eignir upp á 30 milljónir króna í skuldabréfasjóðnum Sjóði 1 hjá Glitni þann 24. september 2008 og keypti hann norskar krónur fyrir upphæðina. Þessar 30 milljónir setti Bjarni í norskar krónur,“ segir í umfjöllun Stundarinnar.